138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:59]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er með ólíkindum að hlusta á þingmenn Samfylkingarinnar koma upp og tala um efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Framsóknarflokkurinn hefur ekki verið í ríkisstjórn í hátt í þrjú ár en þann tíma hefur Samfylkingin ríkt hér á landi. Hvenær átti hrunið sér stað? Var það ekki á vakt Samfylkingarinnar? Ber Samfylkingin enga ábyrgð á því hvernig fyrir er komið í okkar þjóðfélagi? Hver fór með málefni bankanna í tíð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á árunum 2007 og 2008? Var það ekki Samfylkingin? Var það ekki á þeim tíma sem Icesave-samningarnir þöndust út? Var það ekki á þeim tíma, á vakt Samfylkingarinnar, sem menn opnuðu útibú í Hollandi með leyfi Samfylkingarinnar til að halda Icesave-ævintýrinu áfram? Það er með ólíkindum að samfylkingarmenn skuli koma hingað upp eins og hvítþvegnir — ég ætla ekki að nota orðið englar því þeir eru engir englar, það er með ólíkindum að svo virðist sem skammtímaminnið sé alveg gersamlega horfið hjá hv. þingmanni og jafnvel langtímaminnið líka vegna þess að Samfylkingin er búin að vera hátt í þrjú ár í ríkisstjórn og Samfylkingin er í ríkisstjórn. Þegar við tölum um hrunið hér skal Framsóknarflokkurinn ekki víkja sér undan ábyrgð en að heyra hvern samfylkingarmanninn á fætur öðrum koma hér upp eins og Samfylkingin hafi hvergi komið nærri, þá er það kannski þannig að það er Samfylkingin sem ber hvað mesta ábyrgð á Icesave-klúðrinu. Það er með ólíkindum að hafa þurft að taka þátt í umræðu hér um það mikla klúður, þar sem Samfylkingin skilar algerlega auðu í umræðunni, klyfjar upp á hundruð milljarða sem verið er að setja á kynslóðir Íslendinga langt inn í framtíðina.