138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi erum við sammála um að það eigi að færa skuldbindingar. Aftur á móti get ég ekki tekið undir þann gegndarlausa hræðsluáróður sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur verið með að undanförnu og er kominn tími til að hann fari að reikna með sinni kunnáttu allt annað en verstu hugsanlegu útkomur því þegar hann ræðir Icesave er hann farinn að sjá djöfulinn í hverju horni. Það er rétt hjá honum að það er verið að tala um 40 millj. kr. meðan ekkert verður greitt niður af höfuðstólnum. (PHB: Nei.) Það er verið að tala um að þetta kosti um 200 milljarða sem eru tveir þriðju af því sem Seðlabankinn kostar okkur, líkt og eins árs halli á fjárlögum. Reiknaðu nú vextina ofan á það ef við borgum það ekki niður. Menn verða að hætta þessum hræðsluáróðri og reyna að setja málið fram eins og það er.

Það er ekki Icesave sem hefur áhrif á fjárlögin þrátt fyrir alvarlegan og mikinn niðurskurð. Mér finnst þetta verða að koma fram vegna þess að hér hefur umræðan líka verið sú að ef við fellum Icesave hverfi skuldbindingin. Ég skora á hv. þingmann að sýna fram á að það geti gerst, að þetta komi ekki fyrir dóm og dæmd verði á okkur jafnvel tvöföld upphæð. Maður sem hefur tilhneigingu til að draga alltaf það versta fram ætti auðveldlega að geta reiknað það út að Bretar og Hollendingar kæmu fyrir Héraðsdóm og gerðu tvöfalda kröfu varðandi Icesave og við lentum í að borga það allt saman. Það er skylda okkar að fá að gera grein fyrir afleiðingum þess að við ljúkum ekki málinu. Við gerum þetta eins rétt og við getum og það er einmitt verið að lagfæra það eftir áratugasetu Sjálfstæðisflokksins að færa inn í bókhaldið þær skuldbindingar sem þar eiga að vera.

Varðandi Íbúðalánasjóð sendi fjárlaganefnd bréf til allra stofnana, bæði í C-, D- og E-hluta, og óskaði eftir því að fá upplýsingar um með hvaða hætti tekið væri á niðurskurði bæði með tilliti til launa og annars kostnaðar en ekki síður byggðasjónarmiða. Við eigum því von á að geta farið yfir þennan þátt og tryggt að allar stofnanir taki hlut í þeim niðurskurði sem er svo mikilvægur á þessari stundu.