138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er margt í þessu máli sem vert er að ræða og margar spurningar sem vakna við yfirferð hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, formanns fjárlaganefndar, á þessu mikla máli. Ég ætla þó að reyna að einbeita mér að einu atriði og reyna að fá skýrari svör en það varðar ónotaðar fjárheimildir ríkisstofnana frá fyrri árum. Nú kom hv. þingmaður örlítið inn á að það liggur fyrir að taka ákvörðun milli 2. og 3. umr. um hvað á að gera í þessum málum, eða á næsta ári. Ég náði því ekki alveg og það væri ágætt að fá það skýrt fram.

Frú forseti, á undanförnum árum hafa verið gerðar miklar breytingar á því hvernig forsvarsmenn stofnana og fjárlagaliða geta flutt með sér ónotaðar heimildir milli ára. Það er m.a. gert þannig að hægt sé að safna fyrir stórum útgjaldaliðum o.s.frv. Jafnframt hefur þetta valdið því að þeir sem hafa sýnt ráðdeild í rekstri hafa átt tök á því að fá þar hvatningu og hvata til að sýna slíka ráðdeild og ekki veitir af á þessum tímum. Hins vegar ríkir óvissa og hefur ríkt allt þetta ár varðandi þessar heimildir. Hún hefur sett stofnanir í mikinn vanda. Það er mjög misvísandi hvaða skilaboð stofnanirnar hafa fengið varðandi hvort það megi í fyrsta lagi nýta þær óráðstöfuðu fjármagnsheimildir sem þegar liggja fyrir vegna undanfarinna ára, ekki síst þegar kemur fram að ekki er búið að taka ákvörðun um hvað verður fyrir næsta ár. Ég held að ekkert okkar vilji sjá kapphlaup eins og var í gamla daga um að þessar heimildir fari allar í eyðslu í desember, þ.e. þegar forsvarsmenn stofnana reyna að klára sínar fjárheimildir til að verða ekki refsað fyrir ráðdeild með því að þær séu teknar af þeim.

Mig langar að biðja hv. þingmann náðarsamlegast að útskýra þetta aðeins betur fyrir mér. Hver er stefnan? Það er mjög mikilvægt að við sendum skýr skilaboð.