138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:07]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég er framsóknarmaður, svo að það sé á hreinu, og tel mig ekki vinstri sinnaðan nema þegar kemur að velferðarkerfinu. Ég er ekki sammála Sjálfstæðisflokknum og einhverjum innan Samfylkingarinnar um að við eigum að fara í að einkavæða það kerfi. Ég held að hið opinbera eigi að standa undir því þannig að það verði opið öllum óháð efnahagsstöðu og búsetu. Það er minn skilningur.

Þegar kemur að atvinnulífinu er ég hins vegar töluvert lengra til hægri en hv. þingmaður sem spurði mig þessara spurninga. Ég er ekki sammála þeim tillögum sem hér er farið út í. Ég tel þær fyrir það fyrsta vera of flóknar. Ég tel ekki ráðlegt á þessum tímum að við séum að flækja einfalt skattkerfi. Ég er einnig ósammála þeirri fullyrðingu að verið sé að gæta að þeim sem hafa það hvað verst í samfélaginu. Ég veit ekki betur en einnig sé verið að leggja skatt á það ágæta fólk. Ég hefði talið að hægt hefði verið að leysa vanda þess á einfaldari og betri hátt en lagt er til. Þó að ég sé þeirrar skoðunar og hafi verið að einhvers konar hátekjuskattur ætti rétt á sér má hann ekki vera það lágur að hann ráðist að millitekjufólki.

Í því árferði sem við búum við gagnrýni ég þá ríkisstjórn sem nú er við völd fyrir að ætlast til þess að millistéttin í landinu, venjulegt fólk, ungt fólk sem hefur verið að koma sér þaki yfir höfuðið, eigi að bera allar byrðar fjármálahrunsins. Þó að menn telji að eitthvað skili sér með því að leggja auknar álögur á þá sem (Forseti hringir.) mest hafa tel ég það lítilræði miðað við það sem verið er að leggja á millistéttina.