138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég vil ekki tjá mig sérstaklega um vinnubrögð í nefndum sem ég sit ekki í eða nefndafundum sem ég hef ekki tekið þátt í. Ég held að ég geti almennt sagt að við getum auðvitað bætt talsvert í okkar vinnubrögðum í þinginu, ég í þeim nefndum sem ég sit í og aðrir þingmenn eflaust líka.

Varðandi það síðasta sem hv. þingmaður spurði um, þ.e. afstöðu til tillagna um niðurskurð, hefur mér ekki gefist tóm til að fara yfir þær en ég held að það sé almennt jákvætt að minni hlutinn, eins og meiri hlutinn, flytji fram tillögur og að það fari fram málefnaleg umræða. Ég held að það sé bara lofsvert. Þær tillögur sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa til að mynda haldið á lofti, um skattlagningu á séreignarsparnaði, held ég að hafi verið jákvætt innlegg í umræðuna og við nýtum það auðvitað að hluta til í tekjuöflun á næsta ári með því að heimila ákveðnar útgreiðslur á séreignarsparnaði. Það getur verið gott að eiga slíkar hugmyndir sem hægt er að grípa til ef á skortir í tekjuöflun eða samdráttur í útgjöldum gengur ekki eftir. En ég held að það sé ástæða til að taka undir með hv. þingmanni í því að það er mjög mikilvægt að fyrirætlanir um samdrátt í útgjöldum gangi eftir vegna þess að þær ákvarðanir sem núna er verið að taka um skattabreytingar eru náttúrlega þess eðlis að við munum ekki geta tekið aðrar slíkar ákvarðanir í þessum mæli að ári eða á þarnæsta ári. Við nýtum ákveðið svigrúm sem verið hefur á skattahliðinni sem ekki verður til staðar. Við göngum auðvitað býsna langt í álagningum á tiltekna vöruflokka. Það eru takmörk fyrir því hvað er hægt að ganga langt í tekjuskatti einstaklinga, fyrirtækja, fjármagnstekjuskatti án þess að tekjustofnarnir fari að bresta. Það er því gríðarlega mikilvægt að fyrirætlanir um niðurskurð útgjalda (Forseti hringir.) gangi eftir því að við höfum kannski ekkert mjög mikið að sækja á tekjuhliðina (Forseti hringir.) hér eftir.