138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem gerist hjá hæstv. ríkisstjórn í þessu frumvarpi er að menn seilast í raun og veru í vasa sveitarfélaganna. Hér eru aðhaldsaðgerðir upp á 37–38 milljarða. Þær fara fram með einskiptisaðgerðum, að fresta vegagerð, fresta uppbyggingu, skerða ellilífeyrisþega og öryrkja. Það er ekki tekið á vandamálunum og þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist eðlilegt við þessar aðstæður að svona hart sé gengið að sveitarfélögunum. Það er klárlega búið að sýna fram á það. Bara með hækkun tryggingagjaldsins um 1,66% eru 2 milljarðar færðir frá sveitarfélögunum yfir til ríkisins. 2 milljarðar eru teknir af sveitarfélögunum bara í þessari einu aðgerð. Af því að hæstv. fjármálaráðherra sagði á fundi fjárlaganefndar að hjá sveitarfélögunum yrði þessi mismunur leiðréttur — og ég þykist vita að hv. þingmaður hafi setið þann fund — hvernig í ósköpunum stendur á því að menn ætla ekki að láta hæstv. fjármálaráðherra standa við þessi orð? Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að það væri þessi grunnþjónusta, sem ég er honum algerlega sammála um, sem menn verða að verja en það eru akkúrat sveitarfélögin sem eru að (Forseti hringir.) verja hana.