138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[22:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún sagðist vilja endurreisa atvinnulífið og verja velferðarkerfið. Nú vil ég spyrja hana: Er ráð að endurreisa atvinnulífið með sköttum sem nánast allir umsagnaraðilar mótmæltu, bæði í umsögnum og viðtölum í hv. efnahags- og skattanefnd, bæði hraðanum og sérstaklega flækjustiginu? Hún vill verja velferðarkerfið en ég spyr: Er það gert með tilviljunarkenndum skerðingum? Rekstrarkostnaður heilbrigðisráðuneytisins sjálfs, aðalskrifstofunnar, hefur t.d. aukist um 8,5% og á sama tíma á að skerða háskólasjúkrahúsið og víðar í kerfinu. Á sama tíma er ekki einu sinni færður kostnaður við tónlistarhúsið sem nú heitir Harpa, svo ég tali nú ekki um Icesave. Fyrir vextina af Icesave mætti byggja eitt sjúkrahús á ári og fyrir verðbæturnar á þessu eina ári, sem eru 100 milljarðar, mætti byggja tvö sjúkrahús.