138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[22:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að þessu kragaverkefni er aðdragandi og búinn að vera í rúmlega ár. Ef ég skil hv. þingmann rétt er hann eftir allan þennan undirbúning ekki tilbúinn til þess að fara í þessa nauðsynlegu hluti og þar af leiðandi halda uppi þjónustustiginu, því allt snýst þetta um þjónustuna. Þetta snýst um sjúklingana. Nei, þess í stað skal fara í flatan niðurskurð, því ég heyri á hv. þingmanni að það á ekkert að gera í þessum fjárlögum. Það er þá sem þarf að gera það. Á móti kemur að hv. þingmaður er tilbúinn til þess að henda heilbrigðisþjónustunni yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytið á einni nóttu. Ekki er búið að ræða eitt einasta orð við forustumenn eldri borgara. Ég veit að þegar við hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sátum með forustu þeirra samtaka var allt í lagi en þegar kemur að því að bjarga þjónustunni, að bjarga sjúklingunum — hægt er að færa rök fyrir að sá undirbúningur hafi staðið yfir í mörg ár og í það minnsta verið mjög mikill undanfarið ár — á ekkert að gera í því.