138. löggjafarþing — 43. fundur,  15. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[00:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru ekki tök á því í stuttu andsvari að endurtaka þá umræðu sem hér fór fram að frumkvæði Sivjar Friðleifsdóttur fyrir réttum þrem vikum um flutning hjúkrunarheimila og þjónustu við aldraða frá heilbrigðisráðuneyti til tryggingamálaráðuneytis. Það eru nokkur rök fyrir þeim flutningi og ég nefndi þau í framsögu minni, m.a. er það stefna og krafa samtaka aldraðra að ellin sé ekki sjúkdómavædd eins og það heitir. Það er líka ákveðin stefnumörkun að flytja þessa þjónustu til sveitarfélaga vegna m.a. samþættingar á heimaþjónustu og heilbrigðisþjónustu og svo stendur til samkvæmt stjórnarsáttmála að sameina þessi tvö ráðuneyti, heilbrigðis- og félags- og tryggingamálaráðuneytið. Ég lýsti því í þeim umræðum sem hér fóru fram að ég væri ekki sannfærð en ég sagði líka áðan að ég reiknaði með að ráðuneytin mundu nú finna leiðir til að tryggja fjármagn til eflingar heimahjúkrun vegna þess að það er aðalatriði en ekki hvar fjármunirnir liggja.

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið til að hrósa aftur þessari frábæru vinnu í kragaverkefninu sem hefur verið unnin núna á mettíma. Hún mun nýtast vel strax á næsta ári þeim stjórnendum heilbrigðisstofnana sem hafa lagt mjög hart að sér við að koma þessu verki í höfn og það enda þótt 1.400 millj. kr. séu alls ekki í hendi. Ég hef margskýrt það hver munurinn á þessu er, það er verið að tala um reksturinn eins og hann var fyrir hrun, á árinu 2008, og síðan er búið að breyta mjög miklu í rekstri allra þessara sjúkrastofnana. Meðal annars er búið að skera niður um 1.700 millj. kr. á Landspítalanum á þessu ári og um 500 millj. kr. í kraganum og 200–300 til viðbótar.

Þessar tillögur verða áfram til skoðunar en þær náðu (Forseti hringir.) ekki að verða grundvöllur að fjárlagatillögum fyrir árið 2010 — og það jafnvel þótt hv. þm. (Forseti hringir.) Guðlaugur Þór Þórðarson hafi í sinni ráðherratíð verið búinn að ákveða (Forseti hringir.) þetta allt saman. Það bara gerðist ekki.