138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil undir þessum lið hvetja hv. fjárlaganefnd til að fara vel yfir þá liði er snúa að markaðssetningu landsins og ferðamála. Að mínu viti er skammarlega lítið sett í að auglýsa landið og markaðssetja það erlendis. Ég veit að aðilar í ferðaþjónustu eru tilbúnir til að leggja enn meira af mörkum en þeir hafa gert hingað til. Við þurfum að stórauka þessa fjármuni. Það þarf ekki nema rétt rúma 600 ferðamenn til að ná til baka í erlendum gjaldeyri 100 millj. kr. aukningu í markaðsstarf. Það þarf 660 ferðamenn til að ná því aftur til baka þannig að ég hvet hv. fjárlaganefnd til að endurskoða þetta milli umræðna og auka þessa fjármuni.