138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[15:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum ákaflega mikilvæga lagasetningu sem hefur verið alllengi í undirbúningi. Hún hefur verið alllengi í meðförum Alþingis en áður hafði farið fram mjög mikil undirbúningsvinna á mörgum sviðum þar sem þess var gætt að hafa mikið samráð mjög víða og niðurstaðan varð það frumvarp sem á sínum tíma var lagt fram, að ég hygg á 135. löggjafarþingi. Þetta mál er ákaflega veigamikið þótt ekki væri nema af þeirri ástæðu að hér er um að ræða heildarlöggjöf á sviði matvæla sem ætlað er að leysa af hólmi aðra löggjöf sem margt kallaði á að yrði breytt. Ef við skoðum þetta frumvarp felur það í sér breytingar á, að ég hygg, einum sex lögum sem gefur til kynna hversu víðtæk þessi lagasetning er að öllu leyti.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir þinginu er á vissan hátt afleiðing þess að við erum að lögtaka ýmsar gerðir og tilskipanir Evrópusambandsins en ég vil þó segja að jafnvel þó að við stæðum ekki í þeim sporum að vilja eða ætla eða þurfa að lögtaka þessar gerðir Evrópusambandsins tel ég að mjög margt af því sem getur að líta í frumvarpinu hefði litið dagsins ljós í öðrum búningi vegna þess að um er að ræða margs konar breytingar sem breytt umhverfi okkar kallar eftir og gerir að verkum að við þurfum að gera þær miklu breytingar sem kallað er eftir að verði framkvæmdar á löggjöf okkar á þessu sviði. Almennt talað getum við sagt sem svo að mjög margt í þessu frumvarpi sé þess vegna til bóta og geri það að verkum að ýmislegt af því sem við erum að gera í matvælaframleiðslu okkar sé gert með betri og öruggari hætti en áður. Er ég þó ekki að vísa til þess að þar hafi eitthvað slaklega verið að málum staðið. Ég er eingöngu að vísa til þess að með þessu er lagaumhverfið varðandi allt matvælaeftirlit gert öruggara og þannig úr garði að það njóti trausts um víða veröld. Það sem mestu máli skiptir er að rammi löggjafarinnar sé þannig að þeir sem vinna eftir henni geti treyst því að þeir sem síðan kaupa afurðirnar gangi út frá því að matvælaeftirlitið sé með þeim hætti að öryggi og gæði sé tryggt.

Annað í þessu frumvarpi er hins vegar pólitískt álitamál, pólitískt deilumál getum við sagt. Við vitum að matvælafrumvarpið, eins og það hefur verið kallað í almennri umræðu, hefur verið mjög umdeilt pólitískt mál og út af fyrir sig er ekkert við því að segja. Það felur í sér á margan hátt grundvallarbreytingar, hefði falið í sér breytingu á innflutningi á ferskum kjötvörum, matvörum, og síðan eru ýmsar breytingar sem lúta að eftirlitskerfinu sjálfu. Við erum með skoðunarstofur sem verða að starfa í öðru umhverfi. Þetta mun hafa í för með sér breytingar á starfsumhverfi dýralækna, þetta mun hafa áhrif á matvælaeftirlit á vegum sveitarfélaganna o.s.frv. Þetta eru allt pólitískt álitamál sem menn þurfa að afgreiða og komast að niðurstöðu um og það er það sem verið er að gera með þessu frumvarpi hérna.

Eins og kemur fram er ég á þessu nefndaráliti með fyrirvara. Hann lýtur að því að ég áskil mér rétt til að flytja breytingartillögur ef ég tel ástæðu til og síðan tel ég helsta ljóðinn á ráði þessa frumvarps þann að það svarar ekki einni meginspurningunni sem lýtur að matvælalöggjöfinni evrópsku sem við þykjumst vera að lögtaka með þessu frumvarpi. Þar á ég við spurninguna um innflutninginn á fersku kjöti. Það mál var gríðarlega umdeilt, eins og menn vita, en hins vegar er alveg ljóst að þegar við skoðum matvælalöggjöfina evrópsku sem við segjumst í þessu frumvarpi vera að yfirtaka og gera að lögum á Íslandi siglum við fram hjá þeirri spurningu vitandi vits vegna þess einfaldlega að hin pólitíska niðurstaða varð, í stað þess að takast á við þetta mál með þeim hætti sem við höfum allar heimildir til, að láta sem ekkert væri og lögtaka matvælalöggjöfina án þess að svara þessari grundvallarspurningu.

Þetta er auðvitað bara pólitískt svar sem þarna hefur verið gefið og er þægindaaðferð við að lögtaka þessa löggjöf. Hins vegar vita allir sem hafa kynnt sér þessi mál að niðurstaðan verður væntanlega sú, eftir 18 eða 20 mánuði þegar þessi lög taka gildi hvað snertir landbúnaðinn, stöndum við frammi fyrir því að ljóst er að við höfum ekki tekist á við þennan þátt matvælalöggjafarinnar. Þá geta menn út af fyrir sig litið þannig á að komi tímar, komi ráð, það er ákveðin friðþæging sem í þessu felst og er aðferðafræði sem vissulega getur hentað núna en er því miður ekki til frambúðar eins og öllum er ljóst sem hafa skoðað þessa evrópsku löggjöf sem við segjumst vera að yfirtaka. Þetta er kannski að sumu leyti eins og að einhverjar þjóðir teldu sig vilja yfirtaka íslensku umferðarlöggjöfina og gerðu það með þeim hætti að segja sem svo: Við tökum yfir íslensku löggjöfina en við heimilum áfram að menn keyri á vinstri kanti, menn virði ekki stöðvunarskyldu og menn keyri yfir á rauðu ljósi. Aðferðafræðin við þessa yfirtöku á þessari löggjöf er einhvern veginn svona.

Það er líka rétt að nefna hér að aðdragandinn að þessu máli er býsna langur. Hann á ekki bara forsögu sína í því að við höfum ákveðið að staðfesta bókun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 26. október 2007. Aðdragandinn er miklu lengri. Það voru gerðar allmargar atrennur að því að Íslendingar yfirtækju evrópsku matvælalöggjöfina. Hún tók hins vegar miklum breytingum um síðustu aldamót í kjölfar þeirra miklu dýrasjúkdóma sem komu upp í Evrópu, sérstaklega Creutzfeldt-Jakobs sjúkdómurinn og fleiri dýrasjúkdómar sem kölluðu á að Evrópumenn og Evrópusambandið endurskoðuðu matvælalöggjöf sína alveg frá grunni. Það varð til þess að allt þetta umhverfi varð mjög fljótandi sem á vissan hátt hentaði okkur að því leytinu að það skapaði skjól fyrir þeirri kröfu sem uppi var af hálfu Evrópusambandsins að við yrðum að yfirtaka matvælalöggjöfina eins og hún hafði staðið.

Þegar við urðum aðilar að EES-samningnum á sínum tíma fengum við, eins og við munum, samþykkt að við yrðum undanþegin matvælalöggjöf Evrópusambandsins, bæði varðandi fiskinn og kjötið. Á tímabilinu var það hins vegar ákvörðun sjávarútvegsins að óska eftir að fá aðild að sjávarútvegshluta þessarar löggjafar. Það hentaði einfaldlega af markaðslegum ástæðum að verða aðili að matvælalöggjöfinni. Íslendingar eru útflutningsþjóð að þessu leytinu, eins og við vitum, og þess vegna fengum við sérstaka undanþágu sem fólst í því að við vorum undanþegin hvað varðaði landbúnaðinn en ekki sjávarútveginn. Það var sem sagt okkar val að hafa þetta með þeim hætti. Með þeim breytingum sem urðu síðan á matvælalöggjöf Evrópusambandsins upp úr aldamótunum eins og ég rakti áðan breyttust þessar aðstæður. Í raun og veru voru þá ekki lengur forsendur fyrir því að við gætum verið undanþegin þessari matvælalöggjöf Evrópusambandsins nema með því að við tækjum um það ákvörðun að verða álitin eins konar þriðja land sem væri að flytja vörur sínar inn á markaði Evrópusambandsins með öllum þeim kostnaði, öllum þeim óþægindum og allri þeirri óvissu sem því mundi fylgja. Þannig stóðu í raun og veru málin á árinu 2005 þegar þáverandi hæstv. landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson hafði frumkvæði að því að takast á við þetta mál eftir að honum var orðið ljóst að ekki yrði undan því vikist. Þá varð niðurstaðan í þáverandi ríkisstjórn að fara til samningaviðræðna við Evrópusambandið. Þá voru gerðar sérstakar áhættugreiningar á því hvort við gætum yfirtekið þessa matvælalöggjöf án þess að stefna í tvísýnu heilbrigði búfjár okkar og okkar íslensku framleiðslu. Niðurstaðan sem þá fékkst eftir að yfir þau mál hafði verið farið af helstu sérfræðingum landsins undir forustu yfirdýralæknis var að við gætum án teljandi áhættu yfirtekið matvælalöggjöf Evrópusambandsins með þessum hætti en þó alltaf með mjög mikilvægri undantekningu sem var sú að við féllumst aldrei á að hingað yrðu flutt inn lifandi dýr frá öðrum löndum eins og við vitum. Norðmenn sem voru í nákvæmlega sömu stöðu og við á þessum tíma sem aðilar að EES komust hins vegar að þeirri niðurstöðu að þeim væri ekkert að vanbúnaði að samþykkja þessa löggjöf og heimila um leið innflutning á lifandi dýrum. Á það höfum við hins vegar aldrei fallist.

Síðan þekkjum við söguna um hvernig þessi mál hafa þróast og nú er þessi staða orðin svona að við erum að ljúka þessari miklu lagasetningu sem ég tel að í séu miklir hagsmunir fólgnir fyrir okkur. Það er mikil óvissa í kringum útflutning á matvöru okkar til Evrópusambandsins, ekki auðvitað bara fiskinum heldur líka kjötinu þegar tækifæri gefast í þeim efnum. Allir hagsmunir okkar eru í því fólgnir að við getum unnið matvæli okkar, hvaða nafni sem þau nefnast, til útflutnings inn á okkar mikilvægustu matvælamarkaði á grundvelli þeirrar matvælalöggjafar sem þar er í gildi. Við getum reynt að snúa þessu við og velta fyrir okkur hvernig við tækjum á móti þeim sem flyttu matvörur hingað inn og vísuðu í matvælalöggjöf sem hefði verið lögð af fyrir kannski heilum áratug. Það gefur augaleið að slíkar vörur mundu ekki eiga leið, ekki greiða leið og einfaldlega enga leið, inn á íslenskan markað. Þetta er í hnotskurn sú staða sem við stóðum frammi fyrir.

Kjarni málsins er þó þessi: Við erum að komast að ákveðinni niðurstöðu. Ég tel að þetta sé friðþægingarniðurstaða að hluta til vegna þessarar spurningar sem snýr að ferska kjötinu. Í sjálfu sér ætla ég hins vegar ekki að gera það að hinu stóra máli ef niðurstaðan er að fara þá leið. Ég tel samt að hún sé ekki skynsamleg og örugglega ekki á vetur setjandi. En við verðum hins vegar alltaf í allri þessari lagasetningu að gæta fyrst og fremst að því að þessi matvælalöggjöf þjóni hagsmunum okkar og geri það að verkum að við getum stundað hér öfluga matvælavinnslu, tryggt matvælaöryggi okkar þannig og um leið tryggt að engin hætta stafi af innflutningi á kjöti, hvort sem það er ferskt eða frosið, hingað til lands gagnvart okkar eigin framleiðslu og búfjárstofnum sem við vitum að eru sérstaklega viðkvæmir í þessu sambandi.

Það eru tvö eða þrjú atriði sem ég ætla aðeins að nefna að öðru leyti sem ég get komist í á þessum skamma tíma sem ég hef, 20 mínútum. Í fyrsta lagi er það mjög mikilvægt sem hér hefur verið gert við undirbúning þessa frumvarps alveg frá upphafi og áréttað síðan við meðferð málsins frekar, bæði við endurskoðun á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins á sínum tíma og núna í vinnslu þingsins í þeim breytingum sem hafa verið gerðar á þessu máli. Það fyrirkomulag sem hefur verið sett upp, þ.e. að búa til einhvers konar áhættumat á matvælaframleiðslunni þannig að ljóst sé að þeir aðilar sem framleiða vöru og standast eðlilegar kröfur geti unnið sér það til ágætis með þeim hætti að það verði til þess að þörfin á opinberu eftirliti verði smám saman minni, þ.e. að menn hafi í raun og veru hvata til að standa sig vel og standa eins vel að matvælaframleiðslu sinni og hægt er, er til þess fallið að auka skilvirkni, auka gæði matvælaframleiðslunnar og draga úr eftirlitskostnaði og gera það þannig ódýrara.

Annað mál sem ég vil aðeins nefna í sambandi við þetta frumvarp er spurningin sem snýr að dýralæknunum. Það mál var á margan hátt býsna erfitt. Samkvæmt þeim tilskipunum sem fyrir liggja var grundvöllurinn að því fyrirkomulagi sem Evrópumenn hafa á því kerfi, eins og hann er rakinn á bls. 57 í athugasemdum við þetta frumvarp, með leyfi virðulegs forseta, sá að „[s]amkeppnissjónarmið mæla jafnframt með því að skilja á milli opinbers eftirlits og almennrar dýralæknisþjónustu. Samkvæmt núgildandi skipulagi á verkefnum og umdæmum héraðsdýralækna eru þeir í mörgum tilfellum að bjóða sömu þjónustu og sjálfstætt starfandi dýralæknar. Slíkt skekkir samkeppnisstöðu sjálfstætt starfandi dýralækna þar sem héraðsdýralæknar fá samhliða þjónustugjöldum greidd laun frá hinu opinbera“.

Þetta er út af fyrir sig alveg skiljanleg afstaða og þetta er kjarni málsins, en þá verður að skoða það að aðstæður hér á landi eru allt öðruvísi en víða í Evrópu. Við búum við dreifbýl héruð þar sem er ómögulegt að standa svo að málum að skilja algerlega á milli opinbers eftirlits og almennrar dýralæknaþjónustu. Þess vegna er mikilvægt ákvæði í þessu frumvarpi sem kveður á um að eftirlitsdýralæknar geti með sérstöku leyfi haldið áfram að starfa sem eftirlitsdýralæknar en um leið stundað sinn praxís. Ég tel að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið eigi að túlka þessa heimild mjög rúmt þannig að tryggt sé að dýralæknaþjónusta versni í engu frá því sem núna er. Hér eru sérstakar aðstæður, eins og ég hef rakið, sem mæla með því að þetta sé gert með þessum hætti.

Þá er aftur á móti komið að héraðsdýralæknunum sem eru þá, má segja, yfirmennirnir við þetta eftirlit í landinu. Þar eru heimildirnar til að standa að málum eins og við gerum undir eftirliti dýralæknanna ekki eins rúmar og þess vegna tel ég að það hafi skipt gríðarlega miklu máli að í 41. gr. þessa frumvarps er kveðið á um að hafður sé allrúmur aðlögunarfrestur varðandi héraðsdýralæknana. Samkvæmt 41. gr. er gert ráð fyrir að ráðherra sé „heimilt að fela héraðsdýralækni að sinna tímabundið almennri þjónustu við dýraeigendur á tilteknu svæði“ við tilteknar aðstæður. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir því í upphafi að þessi heimild gilti til 1. nóvember 2013. Liðinn er dálítill tími síðan þetta var skrifað inn í frumvarpið og þess vegna var eðlilegt að lengja þennan aðlögunartíma eins og gert er í þeim breytingartillögum sem fylgja nefndaráliti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Hann er lengdur til 1. janúar 2015. Það má segja sem svo að þarna sé kominn allrúmur tími, ein fimm ár sem hægt er að hafa þetta fyrirkomulag, að héraðsdýralæknar geti jafnframt verið praktíserandi dýralæknar við tilteknar aðstæður. Ég tel að þetta sé mikilvægt ákvæði og ég teldi líka eðlilegt að á þeim tíma yrði fylgst mjög vel með því hvernig þróun dýralæknamála í landinu verður og að þetta opna ákvæði sem þarna er verið að setja inn verði endurskoðað og metið með hliðsjón af reynslunni, ekki til að stytta aðlögunartímann heldur fremur til að átta sig á því hvort eitthvað þurfi á þeim tíma að bregðast frekar við þessu ákvæði. Ég tel að með þessu ákvæði sé þó verið að sýna að löggjafinn metur og skilur þær sérstöku aðstæður og vill koma til móts við sjónarmið, ekki bara dýralækna sjálfra, heldur ekki síður dýraeigenda og til móts við dýravelferðarspurningar sem hljóta alltaf að vakna þegar við erum að gera breytingar á starfsumhverfi dýralæknanna.

Þriðja atriðið sem ég vildi nefna er spurningin um skoðunarstofurnar. Það var sömuleiðis nokkuð erfitt og vandasamt mál. Samkvæmt tilskipuninni frá Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu var ekki gert ráð fyrir því að skoðunarstofur gætu starfað nákvæmlega með þeim hætti sem þær hafa gert hér á landi. Mér er sagt að skoðunarstofufyrirkomulagið sé býsna sérstakt fyrir Ísland. Það var tilraun til að færa þennan eftirlitsþátt frá ríkinu og inn á almennan markað. Þær skorður sem okkur eru reistar fela það í sér að starfsemi skoðunarstofa verður að vera með þeim hætti að hið samningsbundna samband sé ekki á milli skoðunarstofanna og þeirra aðila sem þær skoða heldur verður það að vera milli skoðunarstofunnar og Matvælastofnunar um margt til að tryggja að ekki verði um að ræða hagsmunaárekstur milli eftirlitsþolans og eftirlitsaðilans. Þetta er tiltölulega auðskilið prinsipp. Hins vegar tel ég að það eigi ekki að vera sjálfstætt markmið að ríkisvæða þetta eftirlit. Það er hægt að tryggja að þetta ráðningarsamband sé ekki endilega milli skoðunarstofunnar og eftirlitsþolans og þess vegna verði hægt að halda áfram starfsemi skoðunarstofunnar, sem er atvinnustarfsemi eins og hver önnur, með ráðningarsamningi milli skoðunarstofanna og Matvælastofnunar. Það er sérstaklega kveðið á um þetta í því nefndaráliti sem fylgir breytingartillögunum. Þar er farið mjög rækilega yfir þessi mál. Þar er í fyrsta lagi velt upp þeim vanda sem menn standa frammi fyrir og talað um að auka þann aðlögunartíma sem á að vera til staðar áður en það ákvæði tekur gildi sem kveðið er á um í frumvarpinu, en jafnframt er það sagt vera mat nefndarinnar að nýta eigi þær heimildir sem eru til staðar til að úthluta verkefnum til aðila sem uppfylla þessi skilyrði þannig að faggiltir aðilar geti áfram sinnt sínum tilteknu eftirlitsverkefnum en síðan, sem skiptir öllu máli, að haft verði að leiðarljósi að halda kostnaði eftirlitsþola í lágmarki.

Virðulegi forseti. Ég hef farið mjög almennt yfir aðdraganda þessa máls sem mér finnst nauðsynlegt að skýra þegar málið er komið á lokastig, en jafnframt velt upp þeim álitamálum sem hafa komið upp í starfi nefndarinnar og á þeirri (Forseti hringir.) löngu vegferð sem þetta frumvarp hefur farið. Það hefði verið freistandi að fara yfir þetta með fleiri orðum en það læt ég bíða að sinni.