138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

56. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli nú fyrir nefndaráliti hv. viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006. Tilefni breytinganna eru athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna atriða sem snerta innleiðingu EB-tilskipunar nr. 2005/60/EB með lögum nr. 64/2006.

Viðskiptanefnd leggur til að helstu athugasemdir ESA og þær breytingar sem frumvarpið kveður á um verði samþykktar. Þess ber að geta að á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, hefur fjármálaeftirlitið gefið út leiðbeinandi tilmæli um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, samanber tilmæli nr. II. frá 2008. Verði frumvarpið að lögum, mun Fjármálaeftirlitið uppfæra tilmælin með hliðsjón af þeim breytingum sem kveðið er á um í frumvarpinu.

Frú forseti. Nefndin leggur til að við frumvarpið bætist ákvæði um breytingu á 4. mgr. 5. gr. laganna. Þar er mælt fyrir um að tilkynningarskyldur aðili skuli krefja viðskiptamann sem er þegar í viðskiptum um að sanna á sér deili samkvæmt 1. mgr. Nefndin leggur til að við greinina bætist „að tilkynningarskyldur aðili geti krafist þess að viðskiptamaður afli upplýsinga um raunverulegan eiganda, samanber 2. mgr. 5. gr. laganna, hafi það ekki þegar verið gert. Hér er verið að koma til móts við óskir ríkislögreglustjóra um skýrara orðalag.

Virðulegi forseti. Nefndin leggur með öðrum orðum til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri breytingu:

Á eftir 2. gr. komi ný grein svohljóðandi:

„Á eftir orðunum „skv. 1. mgr.“ í 4. mgr. 5. gr. laganna kemur: og afli upplýsinga um raunverulegan eiganda skv. 2. mgr.“

Við afgreiðslu málsins í viðskiptanefnd voru eftirtaldir nefndarmenn fjarverandi: Guðlaugur Þór Þórðarson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Eygló Harðardóttir og Ragnheiður E. Árnadóttir.

Nefndarálitið samþykktu eftirfarandi aðilar: Sú sem hér stendur, Magnús Orri Schram, Árni Þór Sigurðsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Margrét Tryggvadóttir.