138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

dómstólar.

307. mál
[18:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. ráðherra fyrir frumvarpið og að það skuli vera komið hér fram. Ég held að það sé mjög mikilvægt að brugðist verði við þeirri stöðu sem augljóslega er að koma upp eins og kemur fram í athugasemdum við frumvarpið. Við höfum bæði heyrt frá ráðherra áður og þingmönnum og eins í fjölmiðlum um þá fjölgun mála sem fram undan er eða verður augljóslega og nauðsynlegt að bregðast við því.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram, frú forseti, að þingfestum einkamálum fyrstu níu mánuði ársins samanborið við sama tímabil 2007 hefur fjölgað um tæp 70% og munnlega fluttum málum um tæp 60%. Það segir sig sjálft að það þarf að bregðast við þessu. Síðan segir, frú forseti: „Sakamálum frá ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra hefur fjölgað um meira en 80% á sama tíma.“

Ég kem fyrst og fremst upp til þess, frú forseti, að lýsa yfir stuðningi við frumvarpið. Ég hef hins vegar, eins og hefur komið fram hér í ræðustól, ákveðnar efasemdir um ákveðinn kafla sem kemur fram í athugasemdum við frumvarpið, þ.e. varðandi sameiningu dómstóla. Ég veit að það er til umfjöllunar í þingnefnd og verður skoðað þannig að ég ætla ekki að fara meira út í það.

Eins og fram kemur í athugasemdum við 1. gr. er verið að fjölga dómurum úr 38 í 43 og við fyrstu sýn sýnist mér mjög skynsamlegt hvernig þetta er nálgast, þ.e. að skipað er ótímabundið í embættin en síðan verður horft til þeirra embætta sem losna eftir 2013. Ég fagna þessu framtaki ráðherrans og vona að málið fái nokkuð skjóta meðferð hjá nefndinni og verði lögfest sem allra fyrst þannig að við þessu megi bregðast.