138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[21:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson fagna því að frumvarpið er komið fram. Eftir því, og þessu verkefni, hefur verið beðið.

Ég mun fara aðeins yfir þetta mál í stuttri ræðu hér á eftir en mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra út í ESA-málið. Hún sagði í ræðu sinni að ESA yrði tilkynnt um þennan samning á föstudaginn, ef ég skildi rétt. Hvað á ráðherrann von á að stofnunin taki langan tíma í þetta mál? Er vitað hvenær niðurstöðu er að vænta og er eitthvað búið að kíkja í pakkann? Veit hæstv. ráðherra hvers er að vænta í þessu, eru einhverjar fyrirsjáanlegar hindranir í veginum? Þetta var fyrri spurning mín.

Seinni spurning mín er þessi: Ég tek eftir því að bæði erlendir og innlendir aðilar koma að þessu verkefni, Novator er alla vega með íslenska eigendur, hversu stór hluti fjárfestingarinnar er erlendur, hvort það er vitað. Við erum með gjaldeyrishöft í landinu — ég vona þó að við þurfum ekki að velta því atriði lengi fyrir okkur — og í 3. gr. eru beinlínis gefnar undanþágur frá gjaldeyrishaftalögunum vegna þess að erlendir aðilar eru í beinum tengslum við verkefnið, eins og það er orðað. Hér er um að ræða bæði erlenda og innlenda aðila, hvernig virkar það með tilliti til gjaldeyrishafta og undanþágu frá þeim?