138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[21:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og fleiri gleðst ég yfir því að skapast hafi ný atvinnutækifæri á Suðurnesjum. Ég gleðst sérstaklega yfir því að ekki er um álver að ræða, ekki vegna þess að ég sé á móti álverum sem slíkum heldur vegna þess að betra er að hafa eggin í fleiri körfum en einni. Álið er þegar orðið meira í útflutningi en fiskurinn þannig að það er ágætt að fara yfir í eitthvað annað.

Ég geri hins vegar athugasemdir við það, eins og ég hef alltaf gert, að hafðar séu sérskattareglur fyrir önnur fyrirtæki en íslensk, að menn séu að smíða einhverjar undanþágur og tryggingar fyrir erlend fyrirtæki. Nú er mjög auðvelt að flytja eignarhald fyrirtækja. Íslensk fyrirtæki geta stofnað fyrirtæki í Bandaríkjunum sem aftur fjárfestir á Íslandi og þá heitir það erlend fjárfesting. Þá nýtur það alls konar kosta. Þeir samningar sem hér er verið að gera eru hagstæðari en íslensk fyrirtæki njóta og ég er viss um að fjöldi íslenskra fyrirtækja mundi gjarnan vilja njóta þessa.

Svo eru önnur fyrirtæki sem ég man ekki til að hafi fengið fyrirgreiðslu af þessu tagi. Má þar t.d. nefna verksmiðju við Eyjafjörð sem framleiðir álþynnur eða eitthvað slíkt. Ég man ekki til að hún hafi fengið slíka fyrirgreiðslu þó að eignarhald sé erlent. Ég vil því spyrja hæstv. iðnaðarráðherra, af því að það fyrirtæki er líka iðnfyrirtæki, hvort ekki sé gætt jafnræðis á milli þeirra aðila sem njóta slíks. Hvernig stendur þá á því að þetta fyrirtæki fær þess fyrirgreiðslu en ekki önnur sem hafa komið til landsins ef um það er að ræða, fyrir utan það sem ég gat um að mjög auðvelt er að gera fjárfestinguna að erlendri með því að búa til fyrirtæki í útlöndum sem svo aftur fjárfestir á Íslandi.