138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[22:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir andsvar sitt, svo það sé sagt þá var ég ekki að leggja út frá orðum hv. þingmanns, það var ekki þannig, ég lít svo á og fannst það koma skýrt fram í ræðu hennar að hv. þingmaður vilji fá nýtt endurgreiðslukerfi. Ég held að við séum bandamenn í því að vilja sjá ráðherra setja þá vinnu af stað. Síðan gæti verið ágætt að hv. heilbrigðisnefnd geri það ef það hentar betur. Það hefur verið vaninn að framkvæmdarvaldið setji vinnu sem þessa af stað, það gerði ég sem ráðherra, en því miður náðist ekki að klára þá vinnu fyrir stjórnarslit. En ég er hins vegar spenntur fyrir að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra, eins og ég nefndi áðan.

Hv. þm. Þuríður Backman kom með dæmi um fáránleika kerfisins, því hjá umsagnaraðilum kom fram að lyfjaverð er mismunandi eftir kyni, póstnúmeri og öllu milli himins og jarðar sem maður bara hefði ekki haft hugmyndaflug í. Þannig að þetta er algjör frumskógur í dag. Þeir sem hafa rannsakað þetta hafa þurft að leggja mikið á sig til að geta náð einhverri línu í það að bera saman sambærilega hluti og þetta flækjustig er ekki fyrir þá sem þurfa á lyfjum að halda, það er alveg öruggt.