138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina fyrirspurn til hv. þm. Róberts Marshalls sem er varaformaður samgöngunefndar. Nú eru vandamál sveitarfélaganna mjög mikil eins og því miður hefur komið fram í fréttum á síðastliðnum dögum og því vil ég fá að velta því upp við hv. þingmann hvort hann hafi ekki sömu áhyggjur og ég af sveitarfélögum í landinu.

Ég hef margoft vakið máls á því í ræðustóli Alþingis að ríkið seilist um þessar mundir í tekjur sveitarfélaganna. Það er búið að færa til um 2 milljarða frá sveitarfélögunum beint inn í ríkiskassann með hækkun á tryggingagjaldi. Þegar hæstv. fjármálaráðherra kynnti þetta sagði hann að það yrði leiðrétt gagnvart sveitarfélögunum. Það hefur ekki verið gert og stendur ekki til. Bara til að árétta það þurftu mörg sveitarfélög að taka mjög erfiðar ákvarðanir til að ná saman í rekstri á þessu ári og mörg hver brugðust mjög fljótt við. Sparnaðaraðgerðirnar sem sveitarfélögin fóru í voru hrifsaðar burt með einu pennastriki af hálfu ríkisvaldsins, þ.e. sveitarfélögin voru búin að fara í aðhaldsaðgerðir sem ríkið síðan hirti allt til sín með því að taka 2 milljarða frá sveitarfélögunum.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég hef mjög miklar áhyggjur af stöðu sveitarfélaganna í landinu, líka í ljósi þess að nú er ríkið búið að ganga fram með miklu offorsi í hækkun skatta og ætlar að halda þeirri vegferð áfram. Þá er mjög lítið svigrúm fyrir sveitarfélögin til að hækka enn álögur á íbúana í landinu enda hafa sveitarfélögin brugðist þannig við að þau hafa ekki hækkað álögur mjög mikið.

Eins vil ég nefna að það er mjög mikilvægt að samskiptum ríkis og sveitarfélaga verði breytt. Þegar ríkisvaldið leggur fram frumvörp á Alþingi sem hafa bein áhrif á tekjustofna sveitarfélaga er það skýlaus krafa að þau frumvörp verði kostnaðarreiknuð þannig að það verði metið hvaða áhrif þau hafa á kostnaðarhlutdeild sveitarfélaganna. Ég vil því beina þeim spurningum til hv. þingmanns hvort ekki þurfi að taka upp ný vinnubrögð í þessum málum (Forseti hringir.) og hvort hann deili ekki áhyggjum mínum af skuldastöðu sveitarfélaganna í landinu.