138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum störf þingsins og ég verð að viðurkenna að eftir að hafa hlustað á ræðu hv. stjórnarþingmanns Björns Vals Gíslasonar, en hann er búinn að halda þessa sömu ræðu held ég í hvert skipti sem hann hefur farið upp í ræðustól Alþingis, var ég ekki bjartsýnn á að menn ætluðu að taka það alvarlega að Alþingi hefur eftirlitshlutverk. Hér kom hv. þm. Kristján Þór Júlíusson og vakti athygli á því að Ríkisendurskoðun gerir mjög alvarlegar athugasemdir. Hvað gerir hv. þingmaður, varaformaður fjárlaganefndar? Hann heldur ræðuna sína sem ég nenni ekki að fara í, jafnvitlaus og hún er, í hvert einasta skipti sem hann kemur upp.

Þetta er alvörumál, virðulegi forseti. Þingið verður að taka þetta alvarlega. Ef þingið afgreiddi fjáraukalög og gerði það ekki með réttum hætti — við afgreiðum ekki hluti með réttum hætti, eins og lögmætar eftirlitsstofnanir benda okkur á — er það alvarlegt mál. Ef hv. þingmenn taka það með léttúð er það mjög alvarlegt, alveg á sama hátt og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson bendir á að það er mjög alvarlegt ef framkvæmdarvaldinu, hæstv. ráðherrum í ríkisstjórn, finnst það sjálfsagt að segja að lögreglan á Íslandi misnoti vald sitt og sé með hefndarráðstafanir, það er mjög alvarlegt mál. En varðandi það mál sem vísað var til fyrst varðandi einkavæðingu bankanna bað undirritaður fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna um fund í viðskiptanefnd 3. desember. Ég ítrekaði þá beiðni áðan til að fjallað yrði nákvæmlega um þetta mál (Forseti hringir.) og ég vonast til þess að það verði verði gert sem allra fyrst.