138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Aldrei þessu vant er ég yfirleitt sammála flestu því sem hér hefur verið sagt af skyggnu mannviti. Þó verð ég að gera athugasemd við þá yfirlýsingu hv. þm. Þórs Saaris að hér sé í fyrsta skipti hugsanlega verið að selja bankana til óþekktra aðila. Veit hv. þingmaður ekki um forsöluna að sölu Búnaðarbankans? Getur hv. þingmaður sagt mér til hvaða aðila Búnaðarbankinn var fyrst seldur? (Gripið fram í.) Það hefur aldrei komið fram í dagsljósið. (Gripið fram í.)

Mér finnst það líka töluvert viðurhlutamikið þegar hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, sem ég vil ekki segja að sé blautur á bak við bæði eyru en hann hefur kannski ekki staðið áratugum saman í ræðustóli, kemur og barmar sér yfir því að þetta mál sem varðar kröfuhafana og bankana sé það allra ljótasta sem menn hafa séð og aldrei í sögu þingsins hafi annað eins gerst. Ég held, góðir hálsar, að það sé vel hugsanlegt að hér sé um álitamál að ræða. En ég er sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni, það er ekki nokkur maður sem reynir að fara með ólögum og það er partur af aðhaldshlutverki þingsins að skoða þetta mál. Það er þess vegna sem Ríkisendurskoðun hefur verið boðuð til fundar við fjárlaganefnd í fyrramálið, til að skoða málið.

Hins vegar finnst mér skrýtið að heyra hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma hér og tala um að verið sé að göslast með mál daginn út og inn í gegnum þingið. Þessir hv. þingmenn þekkja aldeilis göslaraganginn. (Gripið fram í.) Voru það ekki þeir sem gösluðust með Ísland til fjandans á 18 árum? Ég held það. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) Á 18 árum, og svo finnst mér sem hér hafi heldur betur skipast veður í lofti þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma og kvarta undan því að verið sé að selja bankana, að verið sé að einkavæða bankana. Það er ekki lengra síðan en í gær að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson lýsti því yfir að það væri mjög jákvætt. Eru þetta bankar sem við eigum? (Gripið fram í.) Gleyma menn ekki einu smáatriði? (Gripið fram í.) Ég veit að hv. þm. Þór Saari gleymir ekki. En gleyma menn því ekki (Forseti hringir.) að hér hrundi allt fjármálakerfið og eignarhaldið fluttist til við það, því miður? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Við vorum að taka ákvörðun um að kaupa ekki bankana.