138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

námslán fyrir skólagjöldum í erlendum háskólum.

224. mál
[15:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Anna Pála Sverrisdóttir) (Sf):

Frú forseti. Það voru kannski nokkur öfugmæli að halda því fram að ég biði spennt eftir að heyra um skerta möguleika íslenskra námsmanna á háskólanámi erlendis. Það er hins vegar að sjálfsögðu jákvætt að ráðherra leggi áherslu á að þetta liggi fyrir sem fyrst af því að ég vil ítreka að þegar maður gerir áætlanir um nám erlendis er ekki nóg að örfáum mánuðum áður en nám á að hefjast liggi fyrir hvort maður hafi fjármögnun til námsins. Ég held að það hljóti að blasa við.

Hæstv. ráðherra minntist aðeins á fyrirspurn og orðaskipti sem við áttum um daginn um skólagjaldalán fyrir nám við íslenska háskóla. Út úr því kom reyndar að við ráðherra vorum báðar lítt hrifnar af skólagjöldum við íslenska háskóla. Það er eitthvað sem íslensk stjórnvöld geta haft stjórn á en þau geta hins vegar ekki haft stjórn hvað varðar erlendu háskólana þannig að þar gilda að sjálfsögðu sérstök sjónarmið. Hæstv. ráðherra minntist á gengistryggingu lánanna erlendis sem að sjálfsögðu er afar jákvætt. Sjálf lenti ég í því að vera skiptinemi erlendis þegar íslenska efnahagshrunið varð og fann rækilega fyrir því. Ég vil ítreka að það gilda sérstök sjónarmið um skólagjaldalán fyrir námi erlendis og mér fannst ekki koma alveg nógu skýrt fram hjá hæstv. ráðherra hvort ekki væri hægt að taka tillit til þessara sérsjónarmiða. Ég minni á að ef sjálfsfjármögnun á að vera allt að 30% getur það þýtt að við hömlum í rauninni fólki að stunda það nám, kannski framhaldsnám við erlenda háskóla, sem það hefur kosið sér. Það held ég að sé gríðarlega alvarlegt og ég legg mikla áherslu á (Forseti hringir.) að þessari vinnu þarf að hraða. Einnig legg ég áherslu á, þótt ég hafi ekki tíma til að ræða þetta frekar, að það skiptir máli að forgangsraða. Ég held t.d. að það megi gera (Forseti hringir.) greinarmun á grunnnámi annars vegar og framhaldsnámi hins vegar.