138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[20:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir þessar athugasemdir varðandi jafnréttismál. Vissulega eru Norðurlöndin fremst í flokki hvað varðar þátttöku og hlutdeild kvenna í stjórnmálastöðum. Við sem hér störfum eigum að nýta okkur þann styrkleika okkar með því að horfa á þau dæmi þar sem vel hefur gengið. Hvers vegna ættum við ekki að gera það?

Ef við skoðum t.d. hlutfall kvenna í sveitarstjórnum á Suðurlandi er algjörlega ljóst að þar er eitthvað á ferðinni vegna þess að þar standa konur mjög sterkar. Í sveitarfélaginu Rangárþingi eystra, sem er rúmlega 1.700 manna sveitarfélag á Suðurlandi, eru t.d. konur í meiri hluta. Það er að mínu áliti vegna þess, frú forseti, að þar hafa konur stigið fram og sagt: Nú kem ég, hér vil ég stjórna. Það þurfum við að gera, hvetja fleiri konur til að þora að stíga fram, vegna þess að það er einfaldlega þannig í pólitík að ef þú segir ekki hvað það er sem þú vilt þá færðu það ekki. Þú þarft hins vegar ekki að hafa reglurnar þannig að þú þvingir þér leiðina áfram. Að mínu viti er það einfaldlega ekki rétta leiðin. Þarna greinir okkur á. Við skulum sjá til hvor leiðin skilar meiri árangri, kannski fáum við að sjá það í framtíðinni. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður ásamt hennar flokkssystkinum ætlar að beita sér fyrir því að lögþvinga kynjakvóta inn í sveitarstjórnarmálin og jafnframt til kosninga á Alþingi.

Ég vil jafnframt benda á að á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi voru þrjár konur í fjórum efstu sætunum. Hefði þar verið beitt kynjakvótum að hætti Samfylkingar eða Vinstri grænna væri það ekki staðan. Konur sem hefðu stigið fram og sagt: Hér kem ég og hér vil ég stjórna, hefðu ekki átt brautargengi þar. Það er því ekki bæði sleppt og haldið. Ég tel að við höfum fulla burði til þess að gera þetta sjálfar. Ég tel að við höfum einfaldlega sýnt á Suðurlandi og í Suðurkjördæmi með fordæmi (Forseti hringir.) að þetta sé vel hægt.