138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[21:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fél.- og trn. (Guðmundur Steingrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi Fæðingarorlofssjóð er það alveg rétt sem hæstv. ráðherra minntist á að kerfið var ekki að fullu fjármagnað þegar því var komið á upp úr aldamótum. Það var t.d. ekkert þak á greiðslum. Það kom fljótt í ljós að sjóðurinn var við það að tæmast vegna þess að ekkert þak var á greiðslum og það þurfti að setja þak. Síðan hefur hámarkið verið skert dálítið mikið. Það var rétt að gera upp að vissu marki. En ég er hins vegar þeirrar skoðunar að 350 þús. kr. hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði, eins og það er núna, það er 350 þús. kr. þak, er of lágt. Ég tel að það muni leiða til þess að feður hugsi sig tvisvar um áður en þeir taka almennilega fæðingarorlof. Hugsanlega eykst það hátterni þeirra að þeir taki það í pörtum en ég held að það sé ekki síður alvarlegt fyrir mæður vegna þess að eins og hér hefur komið fram þá þurfa mæður einfaldlega líffræðilega að taka þetta fæðingarorlof og gera það, oft í sex mánuði. Þær eru oft með mun hærri tekjur en 350 þús. kr., hvað þá 300 þús. kr., þannig að þær verða þá eiginlega næstum því líffræðilega eða skilyrðislaust að taka á sig þessa skerðingu í launum. Feður geta hugsanlega stjórnað þessum áhrifum aðeins betur. Þetta er því mjög alvarlegt fyrir bæði kynin og nú kem ég að því.

Ég sé fyrir mér að hámarkið eigi að vera 400 þús. kr. og kerfið á að vera eins og það er. Það var miðað við 80% af launum. Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hver er hans sýn? Hvernig vill hann að sjóðurinn sé og hvernig sér hann þá fyrir sér að sjóðurinn verði fjármagnaður? Skoðun mín er sú að sterkar röksemdir séu fyrir því að það sé sérstakt kerfi samtryggingar sem við finnum í tryggingagjaldinu sem fjármagnar sjóðinn vegna þess að það er hagsmunamál ekki síst atvinnulífsins og hins opinbera og sveitarfélaga að mannfjölgun verði í landinu, það er nauðsynlegt.