138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[21:26]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fél.- og trn. (Guðmundur Steingrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Spurning mín var aðeins varðandi sýn hæstv. ráðherra. Hvernig vill hann að kerfið sé? Hvert er markmiðið? Hvenær ætlar hann þá að hefja samræður við m.a. aðila vinnumarkaðarins um að koma því kerfi á fót eins og hann vill hafa það? Hvenær ætlar hann að gera það? Það er spurningin. Okkur greinir kannski á um þetta. Mér finnst 350 þús. kr. hámarksgreiðslur, hvað þá 300 þús. kr. hámarksgreiðslur, slíkt þak sé of lágt. Mér finnst að kerfið eigi að stuðla að því að fólk með hærri laun en 400 þús. kr. geti líka farið í fæðingarorlof án þess að bíða verulegan skaða af því. Ég held að það sé mikið hagsmunamál fyrir þjóðfélagið.

Meðallaun í landinu eru einhvers staðar í kringum 425 þús. kr. að ég tel. Það er verulegur hópur af fólki sem horfist þá í augu við verulega kjaraskerðingu af því að eignast barn og sérstaklega ef þakið er 300 þús. kr.

Ég spyr enn og aftur: Hvernig sér hæstv. ráðherra kerfið fyrir sér? Hann réttlætir þá skerðingu sem við stöndum núna frammi fyrir, en það getur varla verið að kerfið svona berstrípað með 300 þús. kr. þaki sé óskakerfi ráðherrans? Mig langar til að vita hvert raunhæft óskakerfi hæstv. ráðherra er og hvernig sér hann fyrir sér að það verði fjármagnað? Ef hann hefur hugmyndir í þeim efnum, hvenær ætlar þá hæstv. ráðherra að hefja verkið við að koma þeim hugmyndum á fót?