138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[22:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka upp þráðinn frá umræðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar varðandi bótasvik og viðurlög við þeim eða það að hafna vinnu og viðurlög við því. Ég gæti ekki verið meira sammála því að það er mjög alvarlegt ef um tryggingasvik er að ræða. Ég vil líka benda á að við getum hert viðurlögin ansi mikið en það hefur engin áhrif ef við tryggjum ekki tæki til að koma upp um bótasvikin. Þar byrjum við. Síðan þurfum við að meta hvort verið sé að nota þau úrræði sem eru til staðar og hvort þau kannski dugi. Um leið og við gefum út skýr skilaboð, um að við ætlum að standa vörð um kerfið okkar, megum við heldur ekki vera með þann tón þegar við gerum breytingar að við gerum þá sem á bótunum eru að mögulegum sökudólgum. En ef í ljós kemur að það er vandamál að viðurlögin séu of léttvæg gagnvart þeim sem eru að svíkja bætur er ég að sjálfsögðu tilbúin til að endurskoða þessi ákvæði.

Mig langar að segja varðandi fjármálaleg samskipti sveitarfélaganna: Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa brýningu og mun héðan í frá tryggja það að ef við teljum að ekki hafi nægilega vel verið farið yfir kostnaðaráhrif fyrir sveitarfélög í hv. félags- og tryggingamálanefnd þá munum við óska eftir kostnaðarumsögn frá fjármálaráðuneytinu. En ég ætla ekki að fordæma vinnubrögðin í frumvarpinu og ég tel að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra muni fara yfir það í ræðu sinni á eftir.