138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[23:16]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Atvinnuleysi í evrulöndunum er að meðaltali um það bil 9,7%. Það er staðreynd og sérstaklega meðal ungs fólks ef við horfum á lönd eins og Spán, þar er ástandið verst. Ástandið er líka gríðarlega slæmt í Svíþjóð, sérstaklega meðal ungs fólks, þar sem menn flykkjast unnvörpum yfir til Noregs til að sækja sér vinnu þangað, sem er nota bene ekki í Evrópusambandinu og hefur ekki tekið upp evru. Það er kannski líka ástæða til að fara aðeins yfir það að ýmsir fleiri eru með tröllasögur, ég þekki nú reyndar ekki þá grein sem hv. þingmaður vitnaði til enda var ég ekki komin inn á þing þegar EES-samningurinn fór í gegn, því miður.

Hins vegar eru til ýmsar fræðilegar greinar um þetta mál. Ég er nýkomin úr ferð til Noregs þar sem ég fundaði með fulltrúum frá norsku nei-samtökunum, Nej til EU, eins og þau heita á norskunni, (Gripið fram í.) og þar hefur farið fram gríðarlega mikil fræðivinna. Þar er gríðarlega mikið efni sem við getum sótt okkur þekkingu til. Þetta er einfaldlega staðreynd. Það er evran sem gerir þetta að verkum (Gripið fram í.) og það er ekki það sem hentar okkur Íslendingum. Tröllasögurnar eru líka víða og þær hafa m.a. flogið dálítið í þinginu í sumar, sérstaklega þegar verið var að ræða um Evrópusambandsaðildina og þær fólust m.a. í því að þegar við mundum ganga í Evrópusambandið mundi öllum okkar vandræðum linna, þá mundum við fá evruna eins og skot og allt yrði eins og blómstrið eina, og væntanlega þúsund blóm blómstra eins og einhver stjórnarþingmaðurinn mælti í sumar.

Ég er með eina spurningu til hv. þingmanns sem talaði um að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hefðu ríkt hér í góðærinu. Var Samfylkingin aldrei í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum?