138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

almenn hegningarlög.

16. mál
[14:28]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði að býsna mikil samstaða hefur verið um málið í nefndinni. Það er rétt sem hann kom líka inn á í máli sínu að tekin hafa verið út fyrir sviga umdeildustu ákvæðin varðandi hryðjuverkakafla málsins sem var í umfjöllun fyrri nefndar og verið er að vinna þau atriði í dóms- og mannréttindaráðuneytinu. Við eigum eftir að fá þau aftur til umfjöllunar og þá á eftir að koma í ljós hvort eins mikil samstaða verður um þau atriði eins og um þetta.

Ég vildi hins vegar, frú forseti, í andsvari mínu nota tækifærið til að þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir þátt sinn í frumvarpinu vegna þess að hv. þingmaður sat í allsherjarnefnd og var formaður allsherjarnefndar á fyrri stigum í vinnslu málsins. Það er nú oftar þannig í þinginu að menn eru að kýta og eru ósammála á milli flokka en þetta er eitt af þeim málum þar sem breið samstaða hefur verið um þessi tilteknu atriði og hefur ekkert skipst eftir flokkum.

Mér finnst vert að þakka þá hluti sem vel eru gerðir og því vil ég nota þetta tækifæri til að þakka hv. þingmanni bæði fyrir samstarfið í vinnslu frumvarpsins og ekki síður fyrir þátt hans í málinu á fyrri stigum þess.