138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir hennar orð. Ég held ég geti tekið undir flest það sem þar kom fram. Ég veit að hv. þm. Þuríður Backman er heilbrigðisstarfsmaður að mennt og þekkir þessi mál vel. Og hún hefur ekki minni áhyggjur en aðrir sem hafa kynnt sér þessa hluti. Hér er um pólitísk hrossakaup að ræða og þjónkun ríkisfjölmiðlanna, alveg sérstaklega, við Samfylkinguna er slík að það er ótrúlegt að ekkert sé um það fjallað.

Af því að við erum að tala um störf þingsins vil ég geta þess að mér þótti áhugavert að heyra það sem kom fram hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og í rauninni líka það sem kom fram hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur, af ólíkum ástæðum þó. Við þurfum ekki einungis að horfa upp á hin ófaglegu vinnubrögð sem einkenna störf ríkisstjórnarinnar heldur glittir líka í tvennt. Annars vegar kemur það betur og betur fram að ekki á að hækka skatta vegna þess að það þurfi að hækka skatta, við höfum nefnilega aðra valkosti. Það á að hækka skatta, flækja skattkerfið, vegna þess að pólitískur vilji er til þess. Þetta er draumur þessarar Alþýðubandalagsríkisstjórnar. Ég held að 8 af 10 af pólitísku ráðherrunum séu úr gamla Alþýðubandalaginu og það sýnir sig afskaplega vel í áherslum ríkisstjórnarinnar.

Vík ég þá að því sem kom fram hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um að allur þessi málatilbúnaður, forgangsröðunin — að klára Icesave og reyna að keyra inn í Evrópusambandið — er ein samfella í þeim misskilningi Samfylkingarinnar að allt muni leysast ef við göngum í Evrópusambandið, að einhvern veginn leysist Icesave-vandinn (Forseti hringir.) með því að við förum í Evrópusambandið, vandi sem við getum aldrei unnið okkur út úr miðað við þær upplýsingar sem við höfum núna.

Virðulegi forseti, þetta er firra.