138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[19:15]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég tek efnislega undir frávísunartillögu hv. þm. Þórs Saaris, ég var reyndar sjálfur með frávísunartillögu en í ljósi þess að minnihlutaálit mitt hefur hærra númer kemur þessi frávísunartillaga til afgreiðslu.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom upp með útkrotað blað og benti á hversu margir gestir hefðu komið á fundi nefndarinnar. (Gripið fram í.) Ég efast um að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi verið að hlusta á þá umsagnaraðila sem gagnrýna frumvarpið harðlega og ekki síst vinnulagið.

Hér er verið að festa í lög skattahækkanir, sérstaklega á landsbyggðina, samgönguskatt á landsbyggðina með því að hækka bensínið enn eina ferðina. Hafa ríkisstjórnarflokkarnir ekki verið að tala fyrir því að lækka flutningskostnað? Hér er verið að fara í þá átt að hækka flutningskostnað í vanbúnu máli sem á að vísa aftur til föðurhúsanna. Það þarf að vinna málið miklu betur, frú forseti, og ég styð þessa frávísunartillögu.