138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:07]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að við skattleggjum okkur ekki út úr kreppunni. Eins og fram hefur komið m.a. í málefnum tengdum ferðaþjónustunni, hafa menn með mjög sannfærandi hætti bent á að miklar skattahækkanir þar geti haft mjög neikvæð áhrif á eftirspurnina í hagkerfinu og þar af leiðandi á fækkun starfa og minnkandi tekjur hins opinbera af þeirri atvinnugrein. Við framsóknarmenn erum ekki sammála sjálfstæðismönnum að öllu leyti í skattamálum vegna þess að ef marka má málflutning sjálfstæðismanna á ekki að hækka eina einustu skatta á næsta ári. Við framsóknarmenn teljum skynsamlegt að hækka einhverja skatta í ljósi þess árferðis sem hér ríkir og sérstaklega hjá ríkissjóði og gera þess frekar langtímaáætlanir um rekstur ríkissjóðs, þannig að við þurfum ekki að hækka mjög snögglega skatta á heimilin og fyrirtækin í landinu og höggið verði því ekki eins þungt. Það væri gaman að heyra skoðun hv. þingmanns á þessu sjónarhorni.