138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum þetta frumvarp um ráðstafanir í skattamálum, virðisaukaskatt o.fl., en eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir talaði um í ræðu sinni, þá er hægt að segja að nafnið á þessu frumvarpi sé hálfvillandi vegna þess að hér er verið að hækka og leggja til auknar álögur í margvíslegum málaflokkum. Við erum hér m.a. með breytingar á lögum um virðisaukaskatt, lögum um bifreiðagjald, lögum um gjald af áfengi og tóbaki, lögum um olíugjald, lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um aukatekjur ríkissjóðs þar sem um mjög miklar og margvíslegar breytingar er að ræða og lögum um skuldatryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Umræðan í dag hefur talsvert mikið beinst í þá átt að fjallað er um virðisaukaskattinn og ég vil þess vegna þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að tala sérstaklega um aukatekjurnar og þá sérstaklega dómsmálagjöldin vegna þess að gríðarlega brýnt er að fólk átti sig á því hvað hér er á ferðinni.

Breytingartillögur þessar eiga samkvæmt tillögum og hugmyndum ríkisstjórnarflokkanna að skila auknum tekjum í ríkissjóð og það er eitthvað sem menn hafa reynt að reikna út. Á sama tíma erum við að fara að taka í gegn fjárlög sem á milli 1. og 2. umr. breyttust mjög mikið í þá átt að þar er gert ráð fyrir frekari útgjöldum ríkisins. Hér kallast því á að það er ekki verið að taka af nægilega mikilli festu á niðurskurði í ríkisfjármálunum líkt og virkileg þörf er á. Af þessu hef ég miklar áhyggjur og tel að við þurfum að reyna að horfa heildstætt á það sem er að gerast í ríkisfjármálunum vegna þess að ég tel að stjórnarflokkarnir séu ekki að því.

Frumvarpið tók miklum breytingum fyrir þessa umræðu, í stað þess að lagt væri til að þrjú þrep væru í virðisaukaskattinum urðu þau tvö og efra þrepið hækkað þannig að ef þetta verður samþykkt eigum við heimsmet í hæð virðisaukaskatts, sem er heimsmet sem okkur langar ekkert til að eiga. Af tvennu illu má kannski segja að betra sé að fara svona í hlutina, það hefði kannski verið nær að hækka neðra þrepið frekar en það efra. Ég sagði þegar þetta mál var fyrst kynnt að vissulega væri alls ekki góð stefna að flækja skattkerfið með því að bæta við enn einu þrepi í virðisaukaskattinn. Þess vegna er ágætt að fallið hefur verið frá því en hins vekur það mér örlítinn ugg í brjósti að hv. framsögumaður þessa nefndarálits, Helgi Hjörvar, sagði hér í ræðustól í morgun, ef mér misheyrðist ekki, að ekki væri endilega verið að falla frá þessum áformum til allrar framtíðar heldur yrði þetta milliþrep hugsanlega skoðað aftur og kæmi hugsanlega inn seinna. Af þessu hef ég ákveðnar áhyggjur, af því að þegar ég sá þetta fyrst taldi ég að batnandi fólki væri best að lifa en svo virðist ekki vera miðað við þá umræðu sem fram hefur farið.

Þessi ríkisstjórn kennir sig við norræna velferð en hvernig birtist okkur þessi norræna velferð? Felst hún í því að við ætlum að eiga heimsmet í því að vera hér með háa skatta eða komum við til með að sjá eitthvað annað? Ég hef ekki orðið vör við það en kannski gætu hv. þingmenn stjórnarflokkanna útskýrt það aðeins fyrir okkur. Eða felst hin norræna velferð kannski í því að koma inn í þingið með öll mál á handahlaupum og leggja til grundvallarbreytingar á skattkerfi landsins, grundvallarbreytingar sem fá mjög litlar eða nánast engar umræður og litla meðferð í nefndum Alþingis? Af þessu hef ég áhyggjur. Ef þetta er það sem norræn velferðarstjórn þýðir þá frábið ég mér að slíkt leggist yfir íslenska þjóð í meira mæli en nú hefur þegar gerst, vegna þess að þegar ákvarðanir eru teknar sem koma til með umbylta því kerfi sem við höfum byggt á lengi um það hvernig við öflum ríkissjóði tekna þá er það eitthvað sem verður að gerast að undangenginni mikilli og vandaðri málsmeðferð. Þess vegna koma þessi vinnubrögð mér nokkuð á óvart, að höndunum sé kastað til þessa.

Ríkisstjórnin hefur verið við völd síðan í febrúar og því hefði maður haldið að ef fara ætti í svo umfangsmiklar og viðamiklar breytingar hefði verið hægt að undirbúa þær betur og leggja þær fram fyrr og fjalla um þær á Alþingi með betri hætti en við sjáum hér. Af þessu hef ég áhyggjur og hef misst töluna á þeim skiptum sem ég hef komið í ræðustól og lýst áhyggjum mínum af málsmeðferðinni hér í þinginu og því að það að keyra mál í gegn með miklum hraða sé að verða regla en ekki undantekning. Því er alltaf vel tekið af hálfu stjórnarflokkanna, talsmenn þeirra hafa komið og sagt að þetta væri einmitt bara undantekning en ekki regla, en þegar ég stend hér enn einu sinni og fjalla um málsmeðferðina þá er það, alla vega nú á síðustu vikum, frekar regla en undantekning að málsmeðferð á þeim málum sem hingað koma sé óvönduð. Vil ég t.d. nefna náttúruverndaráætlunina sem var rifin út úr umhverfisnefnd órædd og án þess að menn kæmu fyrir nefndina sem höfðu veitt umsögn. Þetta allt saman veldur mér miklum áhyggjum.

Frú forseti. Þessu frumvarpi fylgja miklar gjaldahækkanir. Í frumvarpinu er mælt fyrir um 4% hækkun á bensíngjaldi, 3% hækkun á olíugjaldi og 10% hækkun bifreiðagjalds og þessar hækkanir bætast ofan á þær hækkanir sem gerðar hafa verið á undanförnum missirum og jafnframt þær hækkanir sem lög um umhverfis- og auðlindaskatt leggja á heimili landsins. Þess vegna ræddi ég m.a. við hv. þm. Helga Hjörvar hér fyrr í dag í andsvari um það hvort ekki sé vert að hafa áhyggjur af því hvaða áhrif þetta frumvarp og í rauninni heildarskattapakki ríkisstjórnarinnar komi til með að hafa, annars vegar á stöðu heimilanna í landinu og hins vegar á landsbyggðina þar sem umtalsverðar hækkanir á bensíngjaldi, olíugjaldi og bifreiðargjaldi koma að sjálfsögðu til með að hafa mikil áhrif. Á landsbyggðinni eru vegalengdir víða miklar og menn fara um langan veg til að sækja vinnu og víða eru ekki almenningssamgöngur þannig að menn þurfa vissulega að nota einkabíla og þess vegna kemur þetta til með að hafa mikil áhrif á landsbyggðina.

Þá er líka vert að vekja athygli á því að þarna er náttúrlega gengið talsvert nálægt ferðaþjónustunni sem verður sífellt fyrir auknum kostnaði og ég kalla svolítið eftir því að ríkisstjórnarflokkarnir upplýsi okkur um það hver heildarhugsunin í skattlagningarherferð þeirra er. Vissulega er ljóst að það er halli á ríkissjóði og allir vita hvernig hann er til kominn, en hann er ekki síður erfiður við að eiga þegar hvorki virðist vera vilji né geta til að taka á í ríkisrekstrinum þannig að það er eitthvað sem við eigum að hafa áhyggjur af. Þegar maður reynir að horfa á heildarmyndina, að hér sé verið að skattleggja heimilin í landinu, atvinnulífið og svo náttúrlega ómæld áhrif á landsbyggðina verður maður svolítið hugsi þegar maður sér svo að á móti virðist ekki vera tekið fast á í rekstri ríkisins og þegar maður horfir á fjárlagafrumvarpið sem kemur hér til 3. umr. í næstu viku, að því er mér skilst, þá virðist það heldur ekki vera gert þar.

Þess vegna höfum við sjálfstæðismenn lagt fram hugmyndir okkar um það hvernig við mundum vilja sjá hlutina vegna þess að við erum hér í ábyrgri stjórnarandstöðu og erum ekki hér eingöngu til að tala um það hvað ríkisstjórnarflokkarnir framfylgja furðulegri stefnu heldur einnig og ekki síður til að leggja fram okkar eigin tillögur og þar er fyrst og fremst tillaga okkar um skattlagningu séreignarlífeyrissparnaðar. Ég mæli einfaldlega með því að sú tillaga fái brautargengi hér í þinginu.

Ýmsir þingmenn stjórnarflokkanna hafa lýst því yfir í umræðunni að þeim lítist hreint ekkert svo illa á þessa tillögu og að hún sé einfaldlega eitthvað sem er vert að skoða. Þess vegna, þegar maður reynir að horfa yfir allt sviðið, verður maður svolítið hissa á því að ekki hafi verið lögð meiri alvara í það af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að skoða þessa hugmynd.

Nú er það upplýst að hv. þingmönnum, t.d. Framsóknarflokksins eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kom inn á hér áðan, líst mjög vel á þessa hugmynd og það virðist vera þverpólitísk samstaða að miklu leyti um það að skoða þessa leið og fara hana. Þess vegna kalla ég einfaldlega eftir því að það verði gert og af því að hv. þm. Helgi Hjörvar upplýsti það áðan, að þessi hugmynd yrði til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd, þá vonast ég svo sannarlega til að sú vinna verði vönduð og að farið verði í hana af fullri alvöru. Ég treysti einfaldlega á að það verði gert og á orð hv. þingmanns.

Ríkisstjórnarflokkarnir leggja til umfangsmiklar skattahækkanir. Ef við horfum á það hvernig aðrar þjóðir hafa farið í þá vinnu að byggja sig upp eftir efnahagshrun, þá er vandinn vissulega mikill hér á landi og aðstaðan að vissu leyti sérstök, en við verðum að líta á það hvað fræðin kenna okkur og hvað reynsla annarra þjóða segir okkur. Þar er einfaldlega staðan sú að ef maður horfir heildstætt á þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu sviði þá er það er síst til þess fallið að komast hratt og vel út úr efnahagskreppunni að ætla að skattleggja sig upp úr henni. Það er það sem ríkisstjórnarflokkarnir eru að gera og eina hugmyndin sem þeir virðast hafa er að hækka hér frekar skatta í stað þess að reyna að leita annarra leiða, skera meira niður og horfa á þær góðu og málefnalegu tillögur sem stjórnarandstöðuflokkarnir, bæði Sjálfstæðisflokkurinn og eins Framsóknarflokkurinn, hafa lagt hér fram í efnahagsmálum.

Þess vegna, frú forseti, tel ég rétt að ríkisstjórnarflokkarnir taki þetta mál til baka og fari frekar í það að skoða þá hugmynd sem sjálfstæðismenn hafa lagt hér fram.