138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er auðvitað bara partur af þeirri skattahækkanahrinu sem núverandi ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkar bjóða þjóðinni upp á. Ég tek undir orð hv. síðasta ræðumanns um að það sé óskynsamlegt að fara í skattahækkanir af þessu tagi sem leggjast með þungum byrðum bæði á heimili og fyrirtæki í landinu á þessum krepputímum. Ég tek undir sjónarmið um að skattahækkanir þessarar ríkisstjórnar, heildstætt metið, muni því miður verða til þess að dýpka kreppuna og framlengja hana. Ég ætla ekki að fara nánar út í þennan þátt en hins vegar eru nokkur atriði í sambandi við þetta frumvarp sérstaklega sem ég vildi hafa í huga. Okkur er nauðsynlegt þegar við fjöllum um þessi einstöku frumvörp ríkisstjórnarflokkanna, sem eru til umræðu hér í dag, að muna að þetta er liður í skattahækkanahrinu sem við þurfum að horfa á heildstætt. Við þurfum að reyna að meta áhrifin af þeim heildstætt, áhrifin á efnahagslífið, hag fyrirtækjanna í landinu og hag heimilanna í landinu. Ég ætla ekki að verja löngum tíma í þessa umræðu enda hafa aðrir hv. þingmenn farið vel yfir einstaka efnisþætti málsins. Þessi mál hefðu auðvitað öll hvert um sig getað kallað á miklu meiri umræður bæði hvað varðar breytingarnar sem slíkar og eins þau áhrif sem þær kunna að hafa.

Ég ætla þó að nefna að ég held að það hafi verið jákvætt að meiri hluti ríkisstjórnarflokkanna í hv. efnahags- og skattanefnd ákvað að falla frá því að flækja virðisaukaskattkerfið eins og upphaflega frumvarpið gerði ráð fyrir. Ég held að út frá skattalegum og tæknilegum sjónarmiðum og sjónarmiðum um jafnræði atvinnugreina og annað þess háttar sé jákvætt að halda sig við einfalt kerfi. Engu að síður er vert að mótmæla því að þegar ákvörðunin var tekin um einföldunina var valin sú leið að reyna að halda skatttekjunum óbreyttum með því að hækka efra þrep virðisaukaskattsins upp í 25,5% sem, eins og aðrir hv. þingmenn hafa nefnt hér í dag, er trúlega heimsmet í virðisaukaskatti. Reyndar er vert að skoða nánar hvort dæmi séu um það einhvers staðar á byggðu bóli að svo hár skattur sé lagður á með þessum hætti.

Örfá atriði til viðbótar, hæstv. forseti. Við þurfum að horfa á þetta heildstætt, bæði áhrif þeirra skattahækkana sem nú er verið að leggja til samanlagt og hvaða áhrif þau munu hafa á efnahagslífið, heimilin og fyrirtækin, og við þurfum líka að rifja upp að þetta er ekki fyrsta skref þessarar hæstv. ríkisstjórnar í skattheimtu. Í sumar var stigið skref sem munar líka um og kemur líka niður á heimilunum og fyrirtækjunum í landinu. Við skulum rifja aðeins upp að í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að skattheimta á ársgrundvelli verði aukin um 14,7 milljarða. Það eru verðlagsáhrif upp á 0,85% sem fela í sér hærra vöruverð og hækkun á lánum heimilanna. Við þurfum að rifja upp að í sumar voru líka samþykktar skattahækkanir sem m.a. beindust að þeim sköttum sem hér eru til umræðu. Þá var gert ráð fyrir að hækkanir á þessum sköttum, óbeinu sköttunum, yrðu u.þ.b. 7 milljarðar. Þessir 14,7 milljarðar bætast auðvitað við þá tölu þannig að hér er samanlagt um að ræða gríðarlega hækkun. Áhrifin á vísitölu í júní í sumar voru áætluð um 0,5% með sömu afleiðingum og hér um ræðir. Bara með þessu frumvarpi er sem sagt verið að bæta við 0,85% hækkun vísitölu til viðbótar við 0,5% hækkun sem var ákveðin í júní. Eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir gerði grein fyrir verða sumir þeir vöruflokkar sem falla undir þessi lög líka fyrir áhrifum af þessum svokölluðu umhverfis- og auðlindagjöldum sem voru samþykkt í sumar þannig að það bætist við þau áhrif sem verða af þessum skattahækkunum.

Hæstv. forseti. Þó að takmarkaður tími hafi gefist til umfjöllunar í fjölmiðlum mun umræðu um þessi mál auðvitað ekki ljúka. Spurningarnar sem við þingmenn þurfum að velta fyrir okkur á þessari stundu eru nokkrar.

Í fyrsta lagi verðum við að horfa á þessar breytingar og velta fyrir okkur: Munu þessar breytingar leiða til þess að menn muni t.d. frekar leita leiða til að fara fram hjá skattheimtu? Já, augljóslega. Hækkunin á virðisaukaskattinum mun t.d. óhjákvæmilega leiða til þess, miðað við reynsluna hér á landi og alls staðar annars staðar, að fleiri munu leita leiða til að fara fram hjá skatti.

Munu þessar skattahækkanir hjálpa til í sambandi við svigrúm fyrirtækja og heimila til að takast á við erfiðar aðstæður, erfiða skuldastöðu og minni tekjur? Nei, auðvitað ekki. Þær munu bætast ofan á erfiða skuldastöðu og minnkandi tekjur í samfélaginu.

Munu þessar skattahækkanir verða til þess að ýta undir uppbyggingu atvinnulífsins og munu þær ýta undir að fyrirtækjunum og heimilunum takist að reisa sig við í því kreppuástandi sem við búum við? Nei, auðvitað ekki.

Fleiri spurninga má spyrja, hæstv. forseti, en þar sem styttist í atkvæðagreiðslu ætla ég ekki að hafa fleiri orð að þessu sinni. Um áhrif skattahækkana ríkisstjórnarinnar almennt mun ég koma nánar inn á í umræðu um tekjuskatta og fleiri breytingar á skattalögunum sem teknar verða til umræðu hér á eftir. Þetta frumvarp sem slíkt er stórfelld skattahækkun sem bitnar á heimilum í landinu, hvort sem er ríkum eða fátækum. Það er ákveðin jafnaðarstefna í því að þær skattahækkanir sem eru í farvatninu munu væntanlega koma jafnt niður á ríkum sem fátækum. Þær bætast við skattahækkanir sem áður hafa verið ákveðnar og ná til sömu skatta og hér er verið að hækka. Þær verða til þess að dýpka kreppuna og framlengja hana, því miður. Þetta er frumvarp sem við þurfum ekki á að halda.