138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[20:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef skilning á sjónarmiðum hv. þingmanns hvað varðar fæðingarorlofið en um það mál sem við ræðum hér þá er sagt satt og rétt frá. Það er einfaldlega sagt frá því að launum undir 270.000 kr. verði hlíft við skattahækkunum um áramótin. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að auðvitað hefði verið best ef þeir skattar hefðu lækkað um áramótin. Auðvitað er skattbyrðin að aukast í samfélaginu, það er bara eðli málsins samkvæmt. Við erum hér að brúa stærsta gat í sögu ríkisfjármála á Íslandi. Það er einfaldlega óhjákvæmilegt annað en að það komi niður hér og þar. En ég held að það sem skiptir máli í því sé að reyna að gera það þannig að það komi víða niður og sé eins þunnt smurt og unnt er og að þeir sem eru tekjulægstir verði ekki fyrir hækkunum um áramótin eins og hér er gert ráð fyrir. Ég held að það sé fagnaðarefni og við eigum ekkert sérstaklega að þrefa um það, ég og hv. þingmaður. Ég held að við höfum áður lagt áherslu á að gæta einmitt að þeim hópum.