138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[21:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get glatt hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson með því að þó að hann vilji líta á þann tekjuójöfnuð sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur komu á með skattkerfisbreytingum sem persónulegt vandamál Stefáns Ólafssonar get ég líka farið með honum í gegnum ágæta rannsókn mína á vaxandi tekjuójöfnuði vegna skattkerfisbreytinga sem ég gerði á vegum ASÍ á sínum tíma. Ég mun gera það af mikilli vinsemd og virðingu við hv. þingmann.

Ég kom hingað til að ræða þær aðstæður sem hér eru uppi sem eru afskaplega erfiðar í íslensku þjóðarbúi eins og allur þingheimur veit. Við aðstæður sem þessar er ég viss um að hv. þingmaður tekur undir með mér að það væri mjög heppilegt ef við gætum aukið ríkisútgjöld og dregið úr skattheimtu. Það væri hin eðlilega keynesíska leið til að fá hagkerfi til að taka við sér og örva neyslu. Það væri til bóta en raunveruleikinn er oft ekki jafnþægilegur og kenningin gefur til kynna og við höfum engan valkost annan en að draga úr ríkisútgjöldum og auka tekjur ríkisins til að stoppa upp í það fjárlagagat sem við búum við sem er um 180 milljarðar kr. Vaxtakostnaðurinn með þeirri gríðarlegu skuldabyrði sem ríkissjóður býr við er um 100 milljarðar kr. á ári og efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar byggir á því að á næstu þremur árum náum við að rétta af og getum byrjað að greiða niður skuldir okkar til að draga úr vaxtakostnaði svo við getum nýtt ríkisútgjöldin í mikilvæg verkefni á sviði velferðarmála, löggæslu, dómsmála og fleiri samfélagsmálefna.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) sem fór gagnrýnum orðum um tillögur stjórnarmeirihlutans: Hvað leggur hann til í stöðunni?