138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[21:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég legg til í stöðunni er að skorið verði niður í ríkisútgjöldum um 8 milljarða kr. í viðbót. Ég legg til að skattlagðar verði inngreiðslur í lífeyrissjóði þannig að ríkið fái 75 milljarða kr. á næsta ári, sveitarfélögin 40 milljarða kr. og að 8 milljarðar kr. í viðbót fáist í tekjur. Á þeim tíma sem vinnst með því að fara út í þá aðgerð vil ég að skoðuð verði öll ríkisútgjöld og reynt að umbreyta þannig að rekstur ríkisins sé ódýrari en hann er í dag.

Við erum sammála um að lækkun skatta og aukning ríkisútgjalda örvar efnahagslífið. En það er ekki í greinargerðinni sem hv. þingmaður skrifaði upp á. Í henni segir að hækkun skatta sé líklegri til að auka umsvif í hagkerfinu en niðurskurður ríkisútgjalda sem er akkúrat þvert á það sem þingmaðurinn skrifaði undir. Mig langar því til að spyrja þingmanninn á móti og biðja hana að svara í sínu seinna andsvari: Er þingmaðurinn búin að ákveða sig hvort virkar?