138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:22]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við vorum rétt að byrja. Úr því að við erum að tala um hjón og þegar við höfum farið aðeins yfir ójafnaðarríkisstjórn (Gripið fram í: … núna?) Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vil ég segja að auðvitað þarf að horfa til þess hvernig þessar skattkerfisbreytingar hafa áhrif á einstaklinga og hjón. Það að það sé aðeins munur þarna á getur t.d. stuðlað að jafnari atvinnuþátttöku kvenna og karla. Ég spyr hvort hv. þingmaður telji það ekki jákvætt markmið.

Svo spyr ég einnig hvort honum finnist ekki örlítið vandræðalegt að hann skuli hafa stutt þessa ríkisstjórn ójafnaðar sem var hér við völd fram til 2007 og hversu áberandi það er að eftir að Samfylkingin komst til valda hefur jöfnuður verið aukinn myndarlega, m.a.s. á þessum erfiðu tímum. (Gripið fram í: Ekki …) Skattleysismörkin byrjuðu að hækka á ný árið 2007, lífeyristekjur hafa sömuleiðis hækkað talsvert árin 2008 og 2009 (Forseti hringir.) sem hvort tveggja eykur jöfnunaráhrif. Hvað finnst honum um þetta? (Forseti hringir.) (Gripið fram í.)