138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:31]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum tekjuöflun ríkisins af því að tekjuöflun er nauðsynleg í þeirri stöðu sem við erum nú í. Þá er mjög mikilvæg spurning: Hvernig ætlum við að afla þeirra tekna? Okkar svar sem styðjum ríkisstjórnarflokkana, Samfylkingu og Vinstri græn, er að við gerum það með jöfnuð að leiðarljósi. Við gerum það með samstöðu, með því að standa saman um að hver leggi til í samræmi við það sem hann eða hún getur. Þetta er verk þeirrar velferðarstjórnar sem Íslendingar kusu sér í vor.

Við ætlum að halda áfram, frú forseti, að snúa við þeirri ójafnaðarþróun sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur stóðu markvisst að fram til 2007 þegar minn flokkur, Samfylkingin, settist í ríkisstjórn og sneri þeirri þróun við. (Gripið fram í.) Þá var tekin U-beygja í skattapólitík á Íslandi. Það var ekki lengur við völd öfugur Hrói höttur sem tók frá þeim fátæku og setti til þeirra ríku. Mig langar til að fara aðeins betur yfir það og skoða tölur um þá skelfilegu misskiptingarstefnu sem hér ríkti. Auðvitað skiptir mestu máli að horfa fram á við en við þurfum líka að þekkja mistök fortíðar.

Við skulum aðeins skoða ofan af hvers konar þróun við erum enn þá að vinda. Ég var örlítið búin að grípa niður í þessa pappíra áður í andsvörum en fyrir þá áhorfendur sem sitja heima í stofu og fylgjast með þessu fína sjónvarpsefni, umræðum um tekjuskatt o.fl., á laugardagskvöldi mæli ég með greininni „Heimur hátekjuhópanna, um þróun tekjuskiptingar á Íslandi 1993 til 2007“, eftir þá Arnald Sölva Kristjánsson og Stefán Ólafsson. Þar kemur fram, svo stiklað sé á stóru, að tekjuhæstu fjölskyldurnar á Íslandi, þ.e. hæsta 1%, fengu í sinn hlut 4,2% af heildartekjum fjölskyldna í landinu árið 1993, þ.e. fjórfaldan hlut. Árið 2007 var hlutur þeirra af tekjum allra fjölskyldna orðinn 20-faldur, þ.e. 19,8%. Ríkustu 10% fjölskyldna höfðu aukið sinn hlut af heildartekjum fjölskyldna úr 21,8% árið 1993 í 39,4% árið 2007. Þetta eru ekki mörg ár sem við erum að tala um, frú forseti, og afskaplega dramatísk þróun sem við sjáum, og mjög meðvitað og markvisst. Að sama skapi minnkaði auðvitað tekjuhlutdeildin hjá hinum 90% fjölskyldnanna úr um 78% í rúm 60% á sama tíma. Í samræmi við þetta hækkuðu meðaltekjur efstu tekjuhópanna, efsta 1% fjölskyldnanna var að jafnaði með 1,6 millj. kr. í fjölskyldutekjur á mánuði árið 1993 á föstu verðlagi en hafði hækkað í 18,2 millj. kr. á mánuði árið 2007. Þarna eru náttúrlegar allar tekjur meðtaldar. Aukningin hjá þessum hæstu tekjuhópum er margföld aukning tekna hjá meðaltekjufólki og lágtekjufólki á sama tíma. (Gripið fram í.) Um leið og tekjur þessara hátekjuhópa jukust langt umfram tekjur annarra á Íslandi — og þetta var auðvitað afleiðing af markvissri stefnumörkun — bættu stjórnvöld um betur og lækkuðu stórlega skattbyrði þessara hátekjuhópa. Það var gert með innleiðingu nýs fjármagnstekjuskatts eins og ég er búin að rekja áður og það er auðvitað vitað að fjármagnstekjur koma í hlut hátekjuhópanna fremur en annarra. Álagningin á þessum nýja skatti var 10% á móti 37% á atvinnutekjur yfir skattleysismörkum. Þetta kom best þeim allra tekjuhæstu.

Á sama tíma og þetta var að gerast, frú forseti, rýrðu stjórnvöld skattleysismörkin, þ.e. persónufrádráttinn, og það jók umtalsvert skatttekjur lágtekjuhópa og einnig meðaltekjuhópanna. Þannig jók skattstefnan, eins og ég segi, enn á ójöfnuðinn og á sama tíma rýrðu stjórnvöld bæði barnabætur og vaxtabætur til ungra fjölskyldna umtalsvert frá 1995–2006. Það er mjög alvarlegt. Ofan á þetta allt saman kemur niðurfelling hátekjuskattsins á árabilinu 2003–2007 sem magnaði þessa þróun enn þá frekar. Þannig var beinum ívilnunum úthlutað til hátekjufólks um leið og skattbyrði lágtekjufólks, þ.e. lífeyrisþega, ungra barnafjölskyldna, einstæðra mæðra og fólks í lágt launuðum störfum á vinnumarkaði, (TÞH: Þú ert … að telja upp alla.) var aukin. Um leið og hinn óhefti markaður, frú forseti og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, um leið og ójöfnuður tekna fyrir skatta jókst svona verulega beittu stjórnvöld á Íslandi sér fyrir því að auka ójöfnuðinn enn þá frekar með skattstefnunni. Þetta var náttúrlega dæmi sem átti sér ekki hliðstæðu í þróuninni í löndunum í kringum okkur.

En það er svo sem eitthvert ljós í myrkrinu. Eins og ég kom inn á áðan er ég að rekja mistök fortíðar, og frá árinu 2007 er orðinn umsnúningur í skattstefnunni af því að skattleysismörkin hafa tekið að hækka á ný og lífeyristekjur jukust sömuleiðis talsvert á árunum 2008 og 2009 sem er ekki sjálfsagt á þeim tímum sem við lifum núna. Þetta eykur hvort tveggja að sjálfsögðu jöfnunaráhrifin. Svo verður spennandi að sjá hvernig þetta þróast en ég hef mikla trú á ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sem ég styð.

Jæja, þá skulum við halda áfram í því sem stjórnarflokkarnir ætla sér nú að gera. Auðvitað er mikilvægast að við tölum um það frumvarp sem nú liggur fyrir og við höfum þegar tekið talsverða umræðu um, m.a. í efnahags- og skattanefnd þingsins. Svo ég svari því sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson talaði um áðan, eða Pétur Blöndal, ég man nú ekki hvor það var, að ekki hefði verið haft samráð við grasrótina er þetta að sjálfsögðu í beinu samræmi við stefnu beggja flokka, Samfylkingar og Vinstri grænna, a.m.k. einhvers staðar þarna á milli.

Það er verið að hækka skatta, já, en þetta er langt frá því að vera sú skattpíning sem sumir vilja vera láta. Og það er engin ástæða til leikrænna tilþrifa í ræðustól vegna þess sem við erum að gera núna. Þetta er hófleg hækkun, frú forseti. Grípum niður í einstök dæmi. Sé maður með 300.000 kr. í mánaðartekjur hækkar skatturinn um 500 kr., með 400.000 kr. erum við komin upp í rúmlega 3.000 kr. og ef við förum svo hátt sem í 900.000 kr. eða milljón, eða annað sem hv. þingmenn geta t.d. ekki látið sig dreyma um, bætast 17.000 kr. við í skatt.

Frú forseti. Það sem skiptir síðan mestu er að minna verður tekið af tekjum fólks sem er með undir 270.000 kr. Það fólk fær ekki á sig hækkun, það fær lækkun. (Gripið fram í.) (TÞH: Jú, … persónufrádráttur …) Með frumvarpinu er lagt til að farið verði úr tveggja þrepa skattkerfi í þriggja þrepa kerfi. Ræðum þetta aðeins. Þetta gerum við til að auka jöfnuð, frú forseti, af því að ef tvö þrep yrðu áfram og persónuafslátturinn notaður til að stjórna dreifingu skattbyrðanna er náttúrlega miklu erfiðara að stjórna því hversu mikið hver borgar í skatt. Með þrepaskiptu kerfi er miklu auðveldara að finna breiðu bökin sem við þurfum að gera núna ef einhvern tímann er ástæða til. Ég minni á að í löndunum alls staðar í kringum okkur er viðhaft þrepaskipt skattkerfi nokkurn veginn án vandræða. En úr því að talið berst að leikrænum tilþrifum hefur verið svolítið af þeim í kringum þetta mál: Tvö þrep verða þrjú.

Frú forseti. Vissulega geta menn síðan haft áhyggjur af jaðarsköttunum en við skulum halda áfram að slaka á í leikrænu tilþrifunum hér um leið og ég ítreka að ég held að það sé jákvæð hugmynd sem hv. þm. Helgi Hjörvar reifaði áðan, að setja lögbundið hámark á jaðarskatta. Það sem gerist núna er að jaðarskatturinn hækkar um 3 prósentustig hjá meginþorra fólks. Ég held að einhverjir hljóti að hafa séð það flottara, frú forseti.

Að lokum skulum við ræða sérstaklega um persónuafsláttinn sem er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægur. Ég vek athygli á að hann hækkar meira en laun. Það er skattalækkun. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur stunduðu á sínum tíma skattahækkanir með því að halda persónuafslættinum markvisst niðri og töluðu síðan um að þeir væru að setja á skattalækkanir þegar þær nýttust einungis þeim ríkari. Það breyttist 2007 eins og ég hef margoft komið inn á. Hvað þróun persónuafsláttar varðar tel ég heppilegra að hann sé bundinn launaþróun en verðlagsþróun. Þó vil ég að sjálfsögðu ítreka þá afstöðu mína að binding við verðlagsþróun sem kom inn 2006 var jákvæð. Það var breyting sem menn loksins féllust á að gera í kjölfar mikils þrýstings frá stjórnarandstöðunni, m.a. mínum flokki, aðilum vinnumarkaðarins, þ.e. verkalýðsforustunni, o.s.frv. Þetta var að sjálfsögðu jákvætt skref, en það skref var tekið í gervigóðæri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það er að vísu ekkert sérstakt fagnaðarefni að taka trygginguna úr sambandi eins og þarf að gera núna en nú hefur verðlag t.d. hækkað talsvert meira en laun vegna efnahagshrunsins og því er kannski ekki óeðlilegt heldur því miður nauðsynlegt að taka úr sambandi þessa lagasetningu frá tíma gróðærisins. Nú höfum við ekki efni á miklum skattalækkunum. Ég ítreka að ég tel, eins og hv. þingmaður og formaður efnahags- og skattanefndar Helgi Hjörvar talaði um, að það sé mikilvægt í framtíðinni að við bindum skattþrepin við launavísitöluþróun. Ég styð þá hugmynd heils hugar.

Annars vil ég bara segja um þetta stóra persónuafsláttarmál: Það sem skiptir máli núna er ekki hvað átti að gerast á einhverjum gerviforsendum, heldur hvað er að fara að gerast um áramótin. Skattbyrðunum verður jafnar skipt og skattar á lægstu laun munu lækka. Þetta er jafnaðarstefna ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í verki og ég vil koma því á framfæri í tilefni af athugasemdum hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar fyrr í kvöld að ég styð Jóhönnu Sigurðardóttur heils hugar í því sem hún er að gera.