138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru hressilegar umræður hér á laugardagskvöldi. Nú er það svo að helstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að reyna að stemma stigu við þeirri efnahagslægð sem við göngum nú í gegnum eru þær að hækka skatta. Hækka skatta á heimilin, hækka skatta á atvinnulífið, hækka skatta á landsbyggðina o.s.frv. Ýmsar efnahagsrannsóknir leiða líkur að því og sýna okkur fram á það að reynsla annarra sem lent hafa í mikilli efnahagskreppu eins og við höfum lent í, sé sú að aðgerðir sem þessar, þ.e. miklar skattahækkanir, séu til þess fallnar að dýpka kreppu og framlengja hana. Er þetta eitthvað sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa hugsað um? Er þetta hugmyndafræði sem þeir hafa eitthvað skoðað? Eða eru þessar skattahækkanir einfaldlega komnar til vegna þess að vinstri mönnum dettur ekki nokkur annar skapaður hlutur í hug nema ef vera skyldi að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að bjarga okkur út úr þessu öllu saman?