138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[23:00]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel lykilatriði í þessari umræðu á hverju við höfum efni núna þótt hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hafi ætlað að leyfa sér þann lúxus að undanskilja það atriði. Eins og ég kom inn á í ræðu minni er það það sem skiptir máli núna, ekki hvað átti að gerast um áramótin á fölskum grundvelli auðlegðar sem var aldrei þarna, (Gripið fram í.) heldur hvað er að fara að gerast. Það sem er að fara að gerast er að skattbyrði lágtekjuhópa mun minnka. Og ég er stolt af að standa að því jafnvel þótt ég hefði verið til í að geta leyft okkur þann lúxus að minnka skattbyrði lágtekjuhópanna enn þá frekar.

Svo spyr ég hv. þingmann eins og ég spurði — (Gripið fram í.) Jú, ég vil víst spyrja eins og ég spurði Pétur Blöndal áðan og hann kaus að svara ekki sem ég dró mínar ályktanir af: (Forseti hringir.) Hvað hefði hv. þingmaður gert í þessari stöðu fyrir utan að ætla að taka lán í skatttekjum framtíðarinnar? Hefði hann talið sér fært (Forseti hringir.) að lækka byrðar lágtekjufólksins og hefði hann lagt (Forseti hringir.) áherslu á það?