138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[23:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Enn verða hér undur og stórmerki. Hér kemur enn einn þingmaður Samfylkingarinnar og viðurkennir að Samfylkingin hafi einhvern tímann verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Á síðustu tveim dögum er ég komin upp í heila þrjá þingmenn Samfylkingarinnar sem hafa komið í andsvar við mig og viðurkennt þessa staðreynd. Ég held að ég fari að fá einhvers konar verðlaun frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem ætlaði að fara fram á sérstaka rannsókn á þessu viðfangsefni en ég stend bara í þeim rannsóknum hér í ræðupúltinu. Það er ágætt.

Það er alltaf gaman að eiga orðastað við hv. þingmann sem er mjög skýr í tali og hreinskilin með það að henni hugnist ekki skattlagningarhugmyndir okkar sjálfstæðismanna á séreignarlífeyrissparnað. Það er ágætt að hv. þingmaður haldi því svona skýrt á lofti, en það er bæði hægt að finna fræðimenn sem eru fylgjandi þessari hugmynd og sem eru andsnúnir henni, alveg að sama skapi og hægt er að finna þingmenn sem eru hvor á sinni skoðuninni. Þeir sérfræðingar sem ég hef rætt við og þeir sérfræðingar sem hafa komið að því að útfæra þessa hugmynd með okkur eru einfaldlega búnir að sannfæra mig um að þetta sé rétta leiðin.

Ég hafna því alfarið að hér sé um að ræða lán hjá framtíðinni. En ef hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er svona andsnúin því að það sé leitast við að taka lán hjá framtíðinni til að leysa vandamál okkar núna, hvers vegna er þá verið að gera samninga við stóriðjufyrirtækin um að greiða einmitt fyrir fram skatta sína hér á landi? (Gripið fram í: Eða Icesave.) Hvers vegna er verið að ganga frá Icesave-samningunum að því leyti eins og flokkur hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur gengur hér fram í að gera? Er það ekki einmitt að taka lán hjá framtíðinni? Eru þetta ekki alvarlegir hlutir sem eru hér að gerast, frú forseti?

Hugmynd okkar sjálfstæðismanna um skattlagningu séreignarlífeyrissparnaðar er ekkert annað en það að leysa út í rauninni þá eign sem ríkissjóður á og það er ekki gert af því að okkur langi til þess sérstaklega, heldur vegna þess (Forseti hringir.) að aðstæður í þjóðfélaginu eru þannig að við verðum að gera það.