138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[00:03]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal að óráðlegt er að reyna að skattleggja sig út úr kreppu. Það er líka óráðlegt að reyna að skera sig niður úr kreppu með of bröttum niðurskurði, ekki síst þegar hann bitnar á velferðarþjónustunni. Þess vegna höfum við kosið að fara þá leið að finna úrræði sem eru örvandi til nýsköpunar í atvinnulífinu. Við göngum ekki lengra en svo að við skiljum eftir gat í fjárlögunum upp á 100 milljarða á næsta ári. Það er vegna þess að við viljum ekki ganga of langt í skattlagningu, ekki of langt í niðurskurðinum. En það er dýrt að fjármagna fjárlagahalla með lánum, það kostar mikla peninga. Ríkissjóður er að borga um 100 milljarða á ári í vexti. Til þessa þurfum við að sjálfsögðu að horfa. Síðan er hitt að hv. þm. Pétur H. Blöndal er ekki saklaus af því sjálfur að leggja til það óráð sem hann nefnir svo, að reyna að skattleggja sig út úr kreppu. Hann vill hins vegar taka á skattlagningu framtíðarinnar og flytja hana inn í núið með því að taka séreignarsparnaðinn og leggja skatta á hann núna í stað þess að bíða til framtíðar. Ég endurtek að ég hef aldrei blásið þetta úrræði út af borðinu en þetta er neyðarráð og þetta er leið til þess að skattleggja sig út úr kreppu.

Í síðara andsvari mun ég koma að sykrinum.