138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum farið í gegnum einstaka þætti í þessu frumvarpi og fundið litlu stærðirnar. Það sem hv. þm. Magnús Orri Schram er að tala um eru, leyfi ég mér að segja, nánast tíkallar í sambandi við þá þúsundkalla eða milljónir sem við erum að fjalla um í frumvarpinu. Ég held að hvorki sjómannaafslátturinn né hinn svokallaði auðlegðarskattur breyti neinu um heildarmyndina.

Varðandi auðlegðarskattinn er ég í grundvallarsjónarmiðum á móti því að leggja á eignarskatta. Ég hugsa að í mjög mörgum tilvikum muni þessi skattur ekki drepa þá sem hann þurfa að greiða. En ég held líka að þær forsendur sem eru gefnar fyrir útreikningi mögulegra tekjuáhrifa af þessum skatti í frumvarpinu séu mjög óraunhæfar og ég er hræddur um að þær áætlanir sem byggt er á þegar verið er að áætla tekjurnar af þessum skatti, séu miðaðar við einhverja stöðu sem var hér fyrir tveimur árum, 2008 kannski eða 2007 hugsanlega. Hvað sem líður þessum skatti, sem í mínum huga er aukaatriði í þessu frumvarpi í samanburði við þær stórfelldu skattahækkanir aðrar sem er hér verið að leggja til, held ég að þessi skattur muni ekki skila neitt voðalega miklu. Ég er almennt þeirrar skoðunar að skattur á eignir sem ekki bera ávöxt með einhverjum hætti, að slíkur eignarskattur sé óæskilegur. Það er miklu eðlilegra að skattleggja þær tekjur sem menn hafa af eignum sínum en eignirnar sjálfar. Ég tel að það sé miklu betri leið í skattlagningu og þess vegna er ég á móti þessu. En ég tek það fram að fyrir (Forseti hringir.) flesta sem hugsanlega munu greiða slíkan skatt muni þetta ekki breyta neitt ofboðslega miklu.