138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:48]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að við eigum að skoða þá lausn að skattleggja séreignarsparnaðinn en ég tel að það sé ekki skynsamlegt fyrir okkur að fara í stóra einsskiptisaðgerð vegna þess að þá erum við í raun og veru að fá lán hjá börnunum okkar, við erum að taka skatttekjur framtíðarinnar í dag.

Mér þætti vænt um að heyra hvað hv. þingmaður mundi leggja til, hvers konar skatta hún mundi leggja til ef við byggjum ekki við þá lausn að fara í fjölskyldusilfrið. Mundi hún vera spennt fyrir því að leggja 12.500 kr. skatt á hverja milljón sem þeir efnuðustu í samfélagi okkar eiga umfram 90 milljónir nettó? Mundi hún vera áhugasöm um það að afnema sjómannaafsláttinn? Ég held að við þurfum að taka þá umræðu miklu fremur í þessum sal en að ræða alltaf útópískar hugmyndir um einsskiptisaðgerð sem er eins og ég kalla það að selja fjölskyldusilfrið.