138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:58]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ágæta ræðu. Við erum sammála um margt og ég deili áhyggjum hans af sveitarfélögunum sérstaklega svo ég nefni það stóra mál. Ég tek líka undir áhyggjur af þeim vinnubrögðum sem eru viðhöfð á Alþingi. Frá því að ég tók sæti á Alþingi hef ég talað fyrir því að þeim verði breytt, en því miður virðist það ekki raunin. Má í rauninni telja það meiri hlutanum til vansa og kannski sérstaklega sorglegt í ljósi þess að fyrir um ári höfðu þingmenn Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins, sem þá var í ríkisstjórn, áhyggjur af vinnubrögðunum. En þar hefur ekkert breyst.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í eitt atriði. Hann nefndi áðan að sú þensla sem hefði átt sér stað á undanförnum árum og að þær skattalækkanir sem þá var ráðist í hefðu verið olía á eld þenslunnar. Ég velti þá fyrir mér hvort ekki megi núna líta þannig á, vegna þess að ríkisstjórnin er að ráðast í aukna skattheimtu, að það sé um leið olía á eld kreppunnar. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að það að ætla sér að sækja tekjustofnana til einstaklinga og fyrirtækja sé í rauninni stórhættulegt og muni gera kreppuna mun dýpri en hún hefði þurft að verða.

Svo tek ég bara fram að lokum að þegar ég tók sæti á Alþingi lögðum við framsóknarmenn til að fjárlög fyrir árið 2007 yrðu skorin niður, en ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks ákvað að auka þau um 20%. Það voru (Forseti hringir.) slæm mistök.