138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Þjóðin stendur frammi fyrir því að hér varð hrun, bankarnir okkar hrundu og hér er mikil efnahagslægð og það er því mikið verk að koma saman fjárlögum fyrir næsta ár. Mikilvægast við það verk er að hafa í huga að reyna að ná tökum á fjármálum ríkissjóðs með því í fyrsta lagi að skera niður og í öðru lagi að afla ríkissjóði frekari tekna án þess þó að þær séu af þeim toga að þær komi til með að sliga atvinnulífið og leggja það miklar skuldbindingar á herðar almennings í landinu að ekki verið við unað.

Við í Sjálfstæðisflokknum á þingi í stjórnarandstöðu höfum lagt fram okkar tillögur um það hvernig við teljum best að taka á þessum efnahagsvanda. Þær tillögur voru lagðar fram bæði á sumarþingi og svo var tillaga til þingsályktunar lögð fram á haustþinginu. Jafnframt höfum við lagt fram frumvarp til laga sem efnislega felur í sér þá breytingu að séreignarlífeyrissparnaður verði skattlagður fyrir fram. Þannig verði náð því marki að afla ríkissjóði það mikilla tekna að ekki þurfi að ráðast í skattahækkanir sem komi til með að sliga atvinnulífið og jafnframt að forðast að leggja svo miklar álögur á heimilin í landinu að ekki verði við unað.

Ýmsir fulltrúar stjórnarliðar hafa tekið ágætlega í þessa tillögu okkar sjálfstæðismanna og að sjálfsögðu ágætir fulltrúar stjórnarandstöðunnar jafnframt, en hins vegar hefur ekkert verið gert með hana. Hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, fullyrðir þó að nefndin muni fjalla áfram um tillöguna en ég óttast, herra forseti, að það verði einfaldlega of seint. Og ef til stendur að grípa til þess úrræðis þegar búið er að skattleggja um of getur verið að það sé of seint í rassinn gripið.

Nú er það svo að jafnframt þarf að skera niður hjá ríkissjóði. Það er í rauninni eitt veigamesta verkefni ríkisstjórnarinnar að gera það með þeim hætti að landsmenn allir finni að verið sé að beita við það verkefni skýrri forgangsröðun og að jafnræði gæti milli þeirra ákvarðana og þeirra atriða sem tekið er til við að skera niður. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd lögðu upp með það að meira yrði skorið niður en núverandi stjórnarflokkar treysta sér til að gera og þeir buðu fram samstarf við ríkisstjórnarflokkana um það verkefni. Ekki var tekið í þá sáttarhönd og er það miður vegna þess að ég tel gríðarlega mikilvægt á tímum sem þessum að ráðamenn þjóðarinnar sýni að efnahagsmálum sé stjórnað af festu og fagmennsku. Það er gríðarlega erfitt verkefni að skera niður á tímum sem þessum en hins vegar er það óhjákvæmilegt og því tel ég það stórmannlega boðið af stjórnarandstöðuflokki að vilja taka þátt í slíku verkefni með stjórnarflokkunum. Ég harma það mjög að ekki hafi verið hlustað á það boð og í rauninni samstarfsbeiðni stjórnarandstöðuflokksins, Sjálfstæðisflokksins.

Allir landsmenn gera sér grein fyrir því að skera þarf niður. Niðurskurður er óhjákvæmilegur hjá hinu opinbera, hann verður erfiður og það eiga allir eftir að finna fyrir honum, en eins og ég sagði, er gríðarlega mikilvægt að slíkt sé gert af fagmennsku. Ég hef áhyggjur af því að ríkisstjórnarflokkarnir ráði ekki við þetta verkefni og af þeim sökum muni niðurskurðarþörfin vaxa og verða enn erfiðara verk að fara í á komandi árum.

Herra forseti. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa gagnrýnt hugmynd okkar sjálfstæðismanna um séreignarlífeyrissparnaðarleiðina á þeim forsendum að með því sé verið að taka lán hjá framtíðinni. Þetta eru rök sem halda alls ekki og þau hafa verið hrakin í þessum ræðustól. Að mínu viti er það dálítið sérkennilegt af stjórnarandstöðuflokkunum að halda þessum rökum fram þegar að sama skapi þeir sjálfir eru að taka lán hjá stóriðjufyrirtækjunum í skatttekjum framtíðarinnar, af framtíðargjöldum þeirra. Vissulega er það leið til að afla tekna fyrir næstkomandi ár en hins vegar er þetta lán sem þýðir að sjálfsögðu að þessar skatttekjur verða ekki greiddar aftur og ekki á næstu árum.

Hér hefur verið fjallað töluvert um sveitarfélögin og stöðu þeirra og væntingar eða í rauninni þá skuldbindingu sem ríkisstjórnarflokkarnir virðast hafa gert gagnvart sveitarfélögunum varðandi hækkun á tryggingagjaldi, að sveitarfélögin þyrftu ekki að taka hana á sig. Ég vonast til að komið verði til móts við sveitarfélögin að fullu með það og staðið verði við þau orð. Nú hafa samtök eins og ASÍ ásakað ríkisstjórnina um að standa ekki við gerða samninga og því hef ég ákveðnar áhyggjur af þessu vegna þess að ég hef þá trú að sveitarfélögin geti ekki borið þessa hækkun á tryggingagjaldi.

Sveitarfélögin í landinu hafa tekið á sínum rekstri af mikilli festu á undanförnum missirum. Í kjölfar bankahrunsins sýndi það sig að minni stjórnsýslueiningar, eins og sveitarfélögin mörg hver eru, réðu ágætlega við það verkefni að skera niður. Má í því sambandi varpa upp þeirri hugmynd hvort ríkisstjórnin gæti ekki skoðað aðferðafræðina sem þau sveitarfélög sem hafa náð árangri í þessu efni hafa notað og væri hugsanlega hægt að yfirfæra á vinnubrögðin í þinginu sem flestallir sem hér hafa komið og talað í þessu máli gagnrýna mjög. En þau vinnubrögð felast aðallega í því, eins og margoft hefur komið fram hér, að tekjuhlið fjárlaganna eins og þau voru lögð fram við 1. umr. stóðst alls ekki og litu einfaldlega út sem drög að fjárlagafrumvarpi. Stærsta og umtalaðasta dæmið er að sjálfsögðu sá texti sem skrifaður var inn í frumvarpið um orkuskattana sem síðan var horfið frá og menn töluðu eins og þetta hefði aldrei átt að fara á blað, en engu að síður olli þetta miklum óróa og jafnvel einhverjum skaða þar sem vissulega er tekið mark á frumvörpum sem ríkisstjórnarmeirihluti leggur fram. Það hlýtur að vera meiningin hjá ríkisstjórninni að það sé gert, að þetta sé ekki bara einhver markleysa. En svo virðist hafa verið í þessu tilviki.

Herra forseti. Það er náttúrlega grundvallaratriði þegar taka á erfiðar og þýðingarmiklar ákvarðanir að haft sé samráð við þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta en því miður hefur það ekki verið gert við vinnslu þessara fjárlaga. Það var mikill hraði á umfjöllun um breytingartillögur ríkisstjórnarinnar við frumvarpið og tímapressan og álagið á hv. þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd hefur verið gríðarlegt á undanförnum vikum. Ég vil bara nota tækifærið og hrósa sérstaklega þeim fulltrúum, hvar í flokki sem þeir eru, sem eiga sæti í fjárlaganefnd og hafa setið hér dag sem nótt liggur við í öllum þingfundahléum við það að vinna að hinum ýmsu málum. Að sjálfsögðu er svo einnig rétt að hrósa starfsmönnum nefndarinnar.

Mig langar að taka dæmi um verkefni eða atvinnugrein sem hefur átt mjög undir högg að sækja síðan allt fór hér á verri veg og það eru verktakar. Við sáum þá í dag streyma í stríðum straumum um götur borgarinnar til að koma hér niður á þing til að mótmæla því hvernig kjörum þeirra er háttað. Það var svo að 18 þúsund manns unnu við þessa grein, jarðvegsvinnu og byggingariðnaðinn, á undanförnum árum en nú eru um 5 þúsund sem enn hafa starf af því. Þessum mótmælum er ætlað að vekja athygli á því hversu mikilvægt það er að fara í framkvæmdir og halda framkvæmdum í gangi til að örva atvinnulífið og reyna að koma í veg fyrir að hér fari allt í stórt stopp.

Ég hef margoft komið upp í ræðustól á Alþingi og auglýst eftir atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar. Ég hef hvergi fundið henni stað og það verða að teljast mikil vonbrigði þegar meiri hluti sjálfstæðismanna lagði fram metnaðarfullar tillögur í fjárlagagerðinni og þar á meðal um það að Vegagerðinni væri gert kleift að nýta þá fjármuni sem voru óráðstafaðir til að fara í framkvæmdir með það að markmiði að koma fleiri verkefnum af stað og skapa fleiri tækifæri fyrir aðila til að taka að sér verk og vinna. Á þessar röksemdir minni hlutans, þ.e. sjálfstæðismanna, hefur ekki verið fallist í fjárlaganefnd og er það miður. Ég spurði hv. formann fjárlaganefndar í andsvari áðan hvort til stæði að fara í þetta verkefni. Það er ekki búið að slá það algjörlega út af borðinu en hins vegar verð ég að segja, herra forseti, að það eru mér mikil vonbrigði að sjá þess ekki stað í fjárlagafrumvarpinu að fara eigi í þessar breytingar. Með leyfi forseta, langar mig að fjalla betur um þessa tillögu minni hlutans. Hér segir:

„Lagt er til að Vegagerðinni verði heimilað að nýta óhafnar fjárveitingar um síðustu áramót. Framlag til vegamála verði þannig aukið um 4,4 milljarða kr. og verði því fé varið til mannaflsfrekra framkvæmda um land allt og frekar til smærri verkefna en stærri. Þessi aðgerð mundi bæði skapa atvinnu og skila virðisauka til samfélagsins. Hún mundi einnig koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot meðal verktaka, ekki síst þeirra smærri.“

Herra forseti. Ég átta mig á því að hér verður ekki öllu bjargað. Hér verður ekki sú gósentíð að 18 þúsund manns komi áfram til með að hafa atvinnu af því að vinna í jarðverktöku og í byggingariðnaði. Ég tel að flestallir geri sér grein fyrir því. Hins vegar er gríðarlega mikilvægt að ráðamenn hafi eitthvert plan í atvinnumálum og hafi einhverja sýn á það hvernig við ætlum að hindra það að fjöldagjaldþrot verði í þessari stétt sem dæmi, og reyni að vekja von hjá fólki um að verið sé að hugsa málin og koma fram með lausnir sem hindra slíkt. Ég fann þess hvergi stað í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar þegar við áttum orðastað um þetta mál fyrr í dag og er það miður.

Annað atriði sem ég vil fara yfir eru málefni lögreglunnar. Lögreglan vinnur mikið og mikilvægt starf við að viðhalda öryggi í landinu. Framlag hennar til þess verkefnis að verja Alþingi og Stjórnarráðið í byltingunni svokölluðu sem hér átti sér stað fyrir tæpu ári síðan verður seint fullþakkað. Álagið á lögregluna hefur verið gríðarlegt og mun aukast. Það hefur sýnt sig, allar kannanir sýna það að þegar efnahagurinn fer niður á við, eins og gerst hefur hér á landi, eykst álag á löggæslustofnanir. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að gæta að því að skera ekki svo mikið niður í þessum þætti ríkisins að hér verði minna öryggi en við landsmenn eigum að geta krafist. Þegar maður forgangsraðar við niðurskurð, mundi ég fyrst og fremst forgangsraða í því að viðhalda öryggi landsmanna. Það tel ég vera augljóst atriði og mér þykir mjög leitt að sjá að það er ekki hugsunin í þessu fjárlagafrumvarpi.

Þjóðfélagsástandið sem hér hefur ríkt vegna efnahagskreppunnar og bankahrunsins gerir það að verkum að mati allra sem ég hef heyrt í og hafa skoðað þetta mál að mun meira mæðir á lögreglunni og það kemur jafnvel enn til með að aukast. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd vöktu athygli á þessu í nefndaráliti sínu við 2. umr. málsins en ég sé þess ekki stað í því áliti sem meiri hlutinn leggur fram eða í tillögum meiri hlutans að það sé hlustað á þessar athugasemdir.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Reykjavík, en þangað fór ég í heimsókn í liðinni viku ásamt hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, Jóni Gunnarssyni og Ólöfu Nordal, skilst mér að lögreglunni í Reykjavík sé gert að skera niður sem svarar því, að auki við aðrar sambærilegar stofnanir, hvað það kostaði að standa hér fyrir utan og verja Alþingishúsið, 50 millj. kr. Þann kostnað, þá aukavinnu alla, þá vinnu þarf lögreglan sjálf í Reykjavík að bera og fær það ekki bætt. Þetta er gríðarlega alvarlegur hlutur, herra forseti, að mínu mati og sýnir ekki mikla virðingu fyrir þeim mikilvægu störfum (Forseti hringir.) sem lögreglan vinnur hér á landi.