138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:07]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er komið að lokum 3. umr. um fjárlögin fyrir 2010. Fyrir þennan lokahnykk eru komnar þó nokkrar breytingartillögur á milli 2. og 3. umr. frá hv. fjárlaganefnd. Ég verð að fá að segja, hæstv. forseti, að það er ekki óeðlilegt miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi, ekki bara í þjóðfélaginu, heldur einnig í öllu fjármálakerfinu sem og ekkert síður hjá fjármálaráðuneyti og öðrum þeim ráðuneytum sem fara með umsýslu ríkisins. Þar hefur verið mjög mikið álag af ástæðum sem við þekkjum öll allt þetta ár og erfitt í raun og veru að koma endum saman, þannig að hægt sé að segja að yfir öllum hafi verið mögulegt að liggja eins og þörf er. Ég tel að þetta verði svona nokkuð inn á næsta ár líka og geti tekið einhvern tíma að við greiðum úr þeim miklu flækjum og mikla dýpi sem er í fjárlögum ríkisins. Að komast út úr þeim mikla rekstrarhalla sem við blasir er ekki auðvelt mál, rekstur margra stofnana og rekstur hins opinbera og sveitarfélaganna, ég tek þau með, verður erfiður á næsta ári og næstu árum meðan við erum að komast í gegnum þessa miklu erfiðleika. Við verðum að horfa á þá staðreynd að það munu allir taka á sig einhverjar byrðar. Því miður fer velferðarþjónustan ekki varhluta af þeirri skerðingu sem verður að koma yfir opinberan rekstur en reynt hefur verið af fremsta megni að hafa skerðinguna minni í velferðarþjónustunni og þá sérstaklega í heilbrigðisþjónustunni.

Hæstv. forseti. Ég vil í nokkrum orðum fara yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið milli 2. og 3. umr. hvað varðar liði er snúa að velferðarþjónustunni og þær tillögur sem gerðar eru núna um flutning hjúkrunarrýma og nokkurrar annarrar þjónustu aftur frá félagsmálaráðuneyti og yfir til heilbrigðisráðuneytisins. Þessi flutningur á sér þó nokkurn aðdraganda, það þekkir núverandi ríkisstjórn, sú fyrrverandi og þær sem voru þar á undan, að um nokkurra ára skeið hafa menn verið að undirbúa það að koma öldrunarþjónustu sem heildstæðum málaflokki yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Árið 2007 var gert samkomulag af þáverandi ríkisstjórn um að ábyrgð á þeim málaflokki færi yfir til félagsmálaráðuneytisins um áramótin 2008 og að um þessi áramót skyldu málefni öldrunarmála færð inn á fjárlagaliði í því ráðuneyti. Að þessu hefur síðan verið unnið, verkefnastjórn hefur verið komið á eins og lýst hefur verið, og um mitt síðasta sumar var gert samkomulag milli þessara tveggja ráðuneyta um flutninginn og þar með færðust einnig hjúkrunarheimili. Var litið svo á að þeim málaflokki væri best fyrir komið sem einni heild.

Frá því þetta birtist í fjárlagafrumvarpinu hefur hv. heilbrigðisnefnd verið að skoða málið frekar og hvað þetta þýði fyrir þjónustuna. Nefndin hefur kallað til vistunarmatsnefnd og farið yfir málið í þrígang. Einnig fékk hún á milli 2. og 3. umr. á sinn fund aðila sem málið snertir, fulltrúa frá Landssambandi eldri borgara, frá vistunarmatsnefnd, frá Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem hafði þá nýlega ályktað um þennan flutning.

Að þessari vinnu lokinni var ljóst að víða voru áhyggjur af þessum flutningi, þ.e. flutningi hreinna hjúkrunarheimila yfir til félagsmálaráðuneytisins, við núverandi aðstæður og kannski ekki síst vegna þess að svokallað vistunarmat, þ.e. það sem núna er grunnur að því mati hvaða einstaklingar fá inni á hjúkrunarheimilum, hefur breyst á síðastliðnum tveimur, þremur árum. Það mat er alveg heildstætt og er eins fyrir allt landið. Það er þannig núna að þeir einstaklingar sem komast inn á hjúkrunarheimili eru miklu veikburðari og þurfa miklu meiri þjónustu en áður var og eru í raun og veru miklu meiri hjúkrunar- og umönnunarsjúklingar en áður var.

Ég held að við flest lítum svo á að búa eigi öldruðum gott ævikvöld og að breyta eigi núverandi stofnanaþjónustu, sem hefur verið allt of ríkjandi, yfir í þjónustu í heimahúsum eins lengi og aldraðir einstaklingar hafa getu og vilja til. Til þess þarf að byggja upp fjölbreyttari þjónustu en verið hefur og til þess að sú áherslubreyting gangi eftir er ekki nægilegt að hafa þau þjónustustig sem við höfum í dag. Þau eru heimaþjónusta sveitarfélaga, sem hefur að mestu leyti verið þrif og svolítið farið yfir í að vera félagslegur stuðningur, og svo dvalarheimilin sem hafa verið að breytast meira og minna sem betur fer og stefnt er að því að breyta mun meira í þjónustuíbúðir fyrir aldraða þannig að þetta gamla dvalarheimilisform hverfi, stofnanablærinn, en þar sé lægra vistunarstig en þjónusta á hjúkrunarheimilum sem er dýrasta þjónustan.

Á milli allra þessara stiga, frá því að fólk geti búið eitt í heimahúsum með tiltölulega lítilli aðstoð yfir í það að vera vistað á hjúkrunarheimilum, þarf að koma til miklu meiri stuðningur en er í dag, sérstaklega fyrir fólk sem þarf umtalsverðan og þá oft félagslegan stuðning til að geta búið heima og vera ekki íþyngjandi fyrir sína nánustu. Þannig blasir þetta við eftir að vistunarmatið er orðið eins og það er í dag. Það er alveg ljóst að hjúkrunarheimilin eru að breytast í vistunarúrræði fyrir síðustu æviárin eða þegar umönnunarþörfin er orðin svo mikil að ekki er hægt eða erfitt er að sinna slíku heima fyrir. Í dag eru heilbrigðisvandamálin mest undirliggjandi ástæða þess að fólk er á hjúkrunarheimilum, 95% eru heilbrigðis- eða heilsufarsvandamál og 5% félagslegar ástæður. Þetta er sú breyting sem hefur orðið.

Það að stefna í þá átt að fara úr stofnanaþjónustu og yfir í öflugri þjónustu utan heilbrigðisstofnana eða öldrunarstofnana almennt, tekur tíma. Það þarf að byggja heilmikið upp og þetta mun kosta sveitarfélögin umtalsvert að standa vel að slíkri uppbyggingu. Ég tel að meta þurfi mjög vandlega með hverju sveitarfélagi hvort þörf sé á frekari framkvæmdum þar og þá á ég við byggingu hjúkrunarheimila. Og ef niðurstaðan er sú að þörf sé á hjúkrunarheimili í viðkomandi sveitarfélagi verði farið mjög vel yfir það hvernig þjónustu viðkomandi sveitarfélag ætlar að veita, hvernig uppbyggingin á að vera. Sveitarfélögin eru svo misjöfn. Það er ekki hægt að bera þau saman við höfuðborgarsvæðið sem hefur farið þá leið að taka að sér heimahjúkrunina og sinnir henni og samþættir með heimaþjónustunni. Ekki er hægt að yfirfæra það módel eða það munstur yfir á önnur sveitarfélög, því að víða er heilsugæslan þannig mönnuð að þar eru hugsanlega ekki nema einn og upp í fimm hjúkrunarfræðingar á viðkomandi stöð, ef verið er að tala um heimahjúkrunina, sem sinna miklu fleiri verkefnum. Ekki væri hægt að fara þá leið sem er í Reykjavík, að slíta þarna í sundur nema hreinlega að bæta við þjónustuna enn frekar. Það sem skiptir máli þegar við förum þessar nýju leiðir er að undirbúa þetta vel og samþætta vel þjónustuna.

Það hefur sem sé orðið niðurstaða og samkomulag á milli viðkomandi ráðuneyta að fresta yfirfærslunni eða fara ekki í yfirfærslu hjúkrunarheimila sem eru hrein hjúkrunarheimili og að fresta einnig þeim samningi sem nú er í gildi milli heilbrigðisráðuneytisins og Akureyrar og Hafnar í Hornafirði þar sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu að öldrunarþjónustan fari út úr þessum samningum og flytjist yfir til félagsmálaráðuneytisins. Þunginn í þessum tveimur samningum liggur á heilbrigðisþættinum og ég er því mjög ánægð með að sjá að í breytingartillögunum kemur fram að ekki eigi að slíta þessa samninga í sundur.

Eins vil ég geta þess að fram kom hjá gestum nefndarinnar að forstöðumenn stofnana, frá Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, telja mjög mikilvægt að hafa einn rekstraraðila, að heyra ekki undir tvö ráðuneyti. Því er forsenda fyrir þeirri uppskiptingu sem núna er sú, með leyfi forseta, ætla ég að fá að lesa upp forsendur þessa samkomulags sem er á milli heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis — og nú næ ég því ekki í tíma — en það er að flutningur heimilda gangi þannig fyrir sig að forstöðumenn stofnana þurfi aldrei að skipta við nema eitt ráðuneyti og að stofnanir sem eru á grundvelli heilbrigðisstofnana verði áfram hjá heilbrigðisráðuneytinu, en það eru Sóltún, Eir, Skjól, Sunnuhlíð, Droplaugarstaðir og Skógarbær. Að sérstakir samningar verði áfram hjá heilbrigðisráðuneytinu, enda séu í þeim stórir þættir sem eru heilbrigðisþjónusta, og þar sem um er að ræða stofnanir og/eða sveitarfélög sem eru í samningaviðræðum við félags- og tryggingamálaráðuneytið vegna væntanlegra bygginga flytjist yfir til félagsmálaráðherra. Og að stofnanir eins og Holtsbúð, Seljahlíð og fleiri, sem eru aðeins rekstrarheimildir vegna hjúkrunarrýma, (Forseti hringir.) verði í félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Og eitt enn til viðbótar, stofnanir með sérsamninga við heilbrigðisráðuneytið eða með sérstaka hjúkrunar- eða heilbrigðisþjónustu við tiltekna sjúklinga (Forseti hringir.) eða við yngra fólk verði áfram hjá heilbrigðisráðuneytinu. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Þetta voru forsendur breytinganna.