138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að nefna það, af því það er í tillögum okkar sjálfstæðismanna að skattleggja séreignarsparnaðinn, að þá þyrftum við ekki að fara í neinar af þeim skattahækkunum sem fyrirhugaðar eru og þær mundu skila okkur um 19 milljörðum meira í tekjur en áætlaðar eru í öllum þessum skattahækkunum.

Hv. þingmaður kom inn á það að hún hefði miklar áhyggjur af þessum niðurskurði og það gefur þá augaleið að við hefðum getað hlíft hugsanlega meira þessum niðurskurði en verið er að gera. Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Hefðum við átt að ræða tillöguna frekar og reyna að vinna meira saman að því að leita leiða til að reyna að styrkja skattstofnana? Og ef það hefði ekki dugað til að ári að fara þá frekar í skattahækkanir til að leiðrétta hallann á ríkissjóði sem er að sjálfsögðu alveg bráðnauðsynlegt að gera. Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Hefðum við ekki átt að vinna frekar saman, stjórn og stjórnarandstaða, að því hvernig við ættum að standa að þessum málum?