138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Samkvæmt samantekt sem ég er með, og ég skal gjarnan láta hv. þingmann hafa ef hún hefur ekki séð hana nú þegar, hefur verið óskað töluvert mikið eftir skýringum frá heilbrigðisráðuneytinu varðandi þá útreikninga sem eru notaðir til að finna út þessar tölur. Sitt sýnist hverjum um það því að svo virðist sem þarna sé verið að bera saman epli og appelsínur þegar verið er að bera saman heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili. Til dæmis, ef byggt er á fjárlagafrumvarpi og tölum frá Hagstofu um íbúafjölda, er framlag á íbúa t.d. í Skagafirði rétt rúmar 191 þús. kr. meðan það er t.d. í Þingeyjarsýslum 217 þús., 224 þús. í Vestmannaeyjum o.s.frv. Það er lægst á íbúa akkúrat á þeim stað sem gert er að skera einna mest niður. Það kann vel að vera að þar ráði því sú reikniformúla sem hv. þingmaður talaði um áðan. Óskað hefur verið eftir skýringum á því í hverju þetta felst en þær hafa ekki komið fram.

Taka verður líka inn í reikninginn að það er rekin í rauninni mjög víðtæk þjónusta og starfsemi á þessari tilteknu sjúkra- eða heilbrigðisstofnun. Til dæmis er þarna eina fæðingardeildin milli Akureyrar og Akraness. Þarna er t.d. skurðstofa og þarna eru sérfræðingar í lyf- og geðlækningum og öðru, og ef horft er á stofnunina í heild er með þessum mikla niðurskurði verið að ætlast til að þjónustan verði skorin niður. Og við megum ekki gleyma því, hv. þingmaður, að það er búið að skera mikið niður hjá þessum stofnunum eins og öðrum undanfarin ár og því er þetta virkilegt högg sem ríkisstjórnin er nú að veita þeim