138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga frá meiri hluta fjárlaganefndar um að bæta Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þær 1.200 millj. kr. sem eru hækkun tryggingagjaldsins frá og með næstu áramótum er fín og góð og ég mun styðja hana. Eftir stendur þó að hækkun tryggingagjaldsins síðan 1. júlí á þessu ári lagði 700 millj. kr. aukalega á sveitarfélögin árið 2009 og 1.300 millj. kr. árið 2010 plús atvinnuleysistryggingafrumvarp félagsmálaráðherra þannig að það hallar á sveitarfélögin um 2,5 milljarða.

Ef það er skoðun hæstv. fjármálaráðherra að hann sé að greiða það til baka með því að sveitarfélögin fái sinn hluta út úr útgreiðslu séreignarsparnaðarins er ég algjörlega ósammála honum í því. Sveitarfélögin eiga sannarlega þær tekjur sem þau eiga í séreignarsparnaðinum þannig að það er mjög sérkennilegur málflutningur að halda því fram að maður greiði til baka með tekjum frá sama aðila.