138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf.

336. mál
[11:04]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um staðfestingar á breytingum á eignarhlut ríkisins í bönkunum. Mörgum spurningum er ósvarað í þessu efni, þó ekki þeirri að það skorti heimild til að vinna þetta mál til enda. Ég mun ekki standa eða vinna gegn því að slík heimild verði veitt, einfaldlega vegna þess við sjálfstæðismenn vöktum athygli á þessu við vinnu fjáraukalaga sem nýlega hafa verið samþykkt. Það eru hins vegar stóru spurningarnar sem er ósvarað í þessum efnum sem lúta að þeirri heimild sem ætlað er að veita samkvæmt þessari grein. Það er farið fram á að Alþingi heimili að staðfesta breytingar á eignarhluta ríkisins í tengslum við, og allt í tengslum við, þá samninga sem gerðir hafa verið.

Það vill einfaldlega þannig til að Alþingi hefur engar upplýsingar um þá samninga sem gerðir hafa verið (VigH: Rétt.) þannig að það er sjálfsagt mál að heimila þessa gjörð sem þegar er orðin en að sjálfsögðu munum við krefjast þess að fá allar upplýsingar um það sem að baki þessarar óskar liggur.