138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf.

336. mál
[11:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ríkið á bankana núna og það lætur þá af hendi og þá er það annaðhvort að selja þá eða gefa þá. (VigH: Gefa þá.) Ég reikna með að það sé frekar að selja þá og gleðst yfir því að hér skuli vera einkavæðing bankanna. Ég taldi í gær upp fjöldann allan af kostum við þetta fyrirkomulag sem ég ætla ekki að endurtaka, hef ekki tíma til þess. Hins vegar er hér um að ræða gjörsamlega opna heimild til hæstv. fjármálaráðherra sem ég set mikið spurningarmerki við. Þó að ég sé mjög ánægður með einkavæðinguna sjálfa mundi ég vilja hafa miklu nákvæmari skilyrði um það hvernig þetta yrði gert. Ég sit þess vegna hjá.